Translate to

Fréttir

ASÍ höfðar mál gegn LÍÚ vegna meintrar pólitískrar vinnustöðvunar

Þann 28. janúar var þingfest í Félagsdómi, mál Alþýðusambands Íslands f.h. allra aðildarfélaga sinna gegn Samtökum atvinnulífsins f.h. Landssambands íslenskra útvegsmanna.

ASÍ krefst þess að viðurkennt verði að sú aðgerð LÍÚ, að beina því til félagsmanna sinna þann 2. júní 2012 að halda skipum sínum ekki til veiða eftir sjómannadag þann 3. júní 2012 og beina þeim þess í stað til Reykjavíkurhafnar 7. júní 2012 í mótmælaskyni gegn frumvörpum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða og veiðigjöld, hafi brotið gegn 2. tl. 17. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Flestum ætti að vera í fersku minni þau læti sem urðu við Reykjavíkurhöfn í kringum svokallaðan „samstöðufund" útgerðarmanna sl. sumar. ASÍ gerir enga athugasemd við þann fund og viðurkennir fúslega rétt útgerðarmanna sem og annarra að hafa skoðanir og halda kröfum sínum á lofti. Ekki sé hins vegar ásættanlegt að nær allur fiskiskipafloti Íslands hafi verið stöðvaður í því samhengi, enda að mati ASÍ engin rök sem hníga til þess að LÍÚ hafi beint því til sinna félaga með boði að ofan að veiðar skyldu stöðvaðar þar til eftir fundinn. Að mati ASÍ hafi þessi stöðvun flotans falið í sér ólögmæta vinnustöðvun eins og það hugtak er skilgreint í nefndum lögum um stéttarfélög og vinnudeilur.  ASÍ telur sig því knúið til að fá það viðurkennt með dómi að LÍÚ hafi með hátterni sínu brotið gegn lögum um stéttarfélög og vinnudeilur enda hafi aðgerðir þeirra valdið almennu tjóni fyrir samfélagið auk þess sem meginreglur um samskipti aðila á vinnumarkaði hafi verið brotnar.

Að lokum má nefna að í 75 ára sögu gildandi laga um stéttarfélög og vinnudeilur hefur aldrei reynt á það með beinum hætti hvort aðilar vinnumarkaðarins hafi misnotað sín lögákveðnu úrræði til að vinna kröfum sínum í vinnudeilum framgang, í pólitískum tilgangi. Má því ætla að dómur í málinu muni hafi talsvert fordæmisgildi. Dóms má vænta þegar nær dregur vori.

Deila