fimmtudagurinn 10. janúar 2013

Á að segja kjarasamningum upp ?

Finnbogi Sveinbjörnsson og Ólafur Baldursson
Finnbogi Sveinbjörnsson og Ólafur Baldursson
Á næstu dögum mun skýrast hver afstaða félagsmanna innan ASÍ er gagnvart endurskoðun kjarasamninga. Föstudaginn 18. janúar verður haldinn síðasti formannafundur aðildarfélaga ASÍ áður en ákvörðun verður tekin um hvort ASÍ félögin vilji segja kjarasamningum upp vegna forsendubrests. En forsendubrestur er staðreynd og hefur verið allt frá haustdögum 2011. Eina forsendan sem hefur haldið er kaupmátturinn, bara rétt svo.

Áður en ákvörðun um uppsögn eða ekki verður tekin þurfum við að skoða stöðuna vandlega. Eru aðstæður til að sækja meira ef við segjum upp samningum?  Ætlar launafólk innan ASÍað stefna á þríhliða samning og hafa stjórnvöld með í pakkanum? Eða ætla aðilar vinnumarkaðarins að treysta á sjálfa sig í verkefninu?  Samtök atvinnulífsins hafa þegar gefið út yfirlýsingu um að þau muni ekki segja upp samningum, og séu ekki til viðræðna um meiri launahækkanir. Á stjórnvöld er því miður lítið að stóla þrátt fyrir að hafa komið inn með einhverja plástra, sem því miður hafa verið alltof fáir og lítið bætt ástandið. Því má segja að ástandið sé í raun mjög víðsjárvert og lítið þurfi út af að bera til að upp úr sjóði.

Nokkrar staðreyndir og vangaveltur
Það liggur fyrir að ef samningum verður ekki sagt upp þá munu taxtalaun hækka um kr. 11.000 og önnur laun um 3,25% þann 1. febrúar 2013 og samningurinn mun halda gildi sínu til 31. janúar 2014. Slík hækkun þýðir að lágmarkstekjutrygging verður kr. 204.000 frá þeim tíma að telja. Það liggur einnig fyrir að ef við segjum samningum upp þá koma þessar launahækkanir ekki til framkvæmda. En samkvæmt nýlegri skoðunarkönnun hjá einum af stóru stéttarfélögunum kemur í ljós að félagsmaður þeirra á taxtalaunum mun verða af um 80.000 króna tekjum með uppsögn kjarasamninga fram til 31. janúar 2014 falli ofangreindar hækkanir niður og ekki tekst að semja við SAHjá þeim sem eru á hærri launum verður skellurinn þá nokkruð hærri í krónum talið.

En hvað er til ráða?  Skoðum stöðuna aðeins og förum yfir nokkrar fyrirliggjandi staðreyndir sem er nauðsynlegt að hafa í huga áður en ákvörðun um uppsögn er tekin:

1.       Með uppsögn núna hljóta félagsmenn innan ASí þá að ætla ná 11.000 krónunum á taxtana og 3,25% á önnur laun + það sem tapaðist frá 1. febrúar þangað til nýjir kjarasamningar hafa náðst + hækkun launa til viðbótar!

2.       Væri kannski betra að halda í samninginn og fá inn hækkanir 1. febrúar og fara í góða undirbúningsvinnu inn í stéttarfélögunum áður en kjarasamningur rennur út þann 31. janúar 2014?

3.       Ætlum við að gera þríhliða samning með stjórnvöldum? Hvaða stjórnvöldum? Hvenær verður komin starfhæf ríkisstjórn að loknum kosningum?

4.       Ekki er vitað hvenær samningar myndu nást, verði farið af stað í uppsögn samninga.Eftir yfirlýsingar SA gætum við átt von á langri samningalotu. Við værum þá hugsanlega að tala um að ná samningum í lok september eða byrjun október, eða rétt áður en núgildandi samningar eiga að renna út.

5.       Gengur slíkt dæmi upp? Er þetta raunhæfur kostur miðað við núverandi stöðu á  vinnumarkaði?

Er endurskoðun kjarasamninga tímaskekkja ?
Í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins veturinn 2010 -11 voru ýmsar vangaveltur í gangi um tímalengd kjarasamningsins. Sitt sýndist hverjum í þeim efnum, en niðurstaðan var að gera kjarasamning til 3ja ára með forsenduákvæðum. Slíkt þýddi í raun að samningurinn yrði endurskoðaður í tvígang á samningstímanum. Hverju hafa þessar endurskoðanir skilað hinum almenna félagsmanni innan ASÍ ?  Svarið er einfalt, endurskoðun hefur engu skilað nema óvissu og óstöðugleika á vinnumarkaði, sem er mjög slæmt fyrir okkar fólk.

Hefur endurskoðun einhverntíma skilað hinum almenna félagsmanni einhverju? Jú einu sinni segja þeir sem þekkja söguna vel, kringum árið 2001 og þá með hækkun á desemberuppbót. Það er nú allt og sumt.

Endurskoðunarákvæði kjarasamninga frá 2008 skiluðu engu öðru en að í miðjum hrunadansinum var launahækkunum félagsmanna okkar frestað og þeim skipt upp. Ekki var það félagsmönnum okkar til mikilla hagsbóta, nema síður sé.  Í ljósi þeirra stöðu sem kjaraviðræðurnar 2011 voru í hefði að okkar mati verið skynsamlegast að hafa engin endurskoðunarákvæði eða að semja einfaldlega til skemmri tíma. Enda er kjarasamningur með endurskoðunarákvæðum ekki annað en endurtekinn skammtímasamningur með tilheyrandi óstöðugleika og óvissu á vinnumarkaði.

Formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga lagði mikla áherslu á það í samningaviðræðunum 2011 að áhersla yrði lögð á að ná meiri launahækkunum inn í samninginn gegn því að sleppa endurskoðunarákvæðum. Þannig væri stuðlað að stöðugleika, meira öryggi og friði á vinnumarkaði í 3 ár. Slík leið hefði verið okkur öllum mikils virði. Ef geta á í viðbrögð fulltrúa Samtaka atvinnulífsins við hugmyndinni, þá var að sjá að það væri dans sem SA væri jafnvel til í að stíga.  Því miður var talað fyrir daufum eyrum félaga okkar í samninganefndum ASÍ.

Átök á vinnumarkaði ?
Við núverandi aðstæður er mikilvægt fyrir okkur öll að skoða hvert við ætlum að stefna og hvaða markmiðum við viljum ná í kjaraviðræðum. Að sjálfsögðu viljum við hærri laun, en væri ekki nokkurs virði að ná inn í samninga ákvæði um að launahækkunum verði ekki dembt jafn óðum út í verðlagið? Slíkt samkomulag gæti væntanlega hjálpað til við að viðhalda þeim kaupmætti sem umsamdar launahækkanir eiga að færa okkar félagsmönnum.  Vinnuveitendur verða líka að spyrja sig hvort á það er hættandi að fara út í átök við núverandi aðstæður á vinnumarkaði.

Það er vissulega að mörgu að huga við endurskoðun kjarasamninga. Við þurfum öll að spyrja okkur, hvort við erum tilbúin til að  segja upp kjarasamningum frá 1. febrúar næstkomandi ogfara í hörð átök við vinnuveitendur og hvort það sé líklegt til að ná fram ásættanlegum kjarabótum?  Í slíkri stöðu mun virkilega reyna á samtöðu og samtakamátt launafólks.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Ólafur Baldursson, varaformaður Verkalýðsfélags VestfirðingaLandssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.