Translate to

Fréttir

Ekkert réttlætir ofurlaun forstjóra hjá íslenskum fyrirtækjum

Launahlutfall forstjóra. Heimild ASÍ Launahlutfall forstjóra. Heimild ASÍ

Í nýrri samantekt ASÍ hafa ofurlaun íslenskra forstjóra verið sett í samhengi við laun almennings í landinu. Ekki kemur neinn nýr snannleikur í ljós, annar en sá að forstjórarnir eru tugföldum verkamannalaunum eins og við flest sennilega vitum. Umræðan fyrir hrun var á þann veg að réttlæta þessi ofurlaun af því fyrirtækin væru að skila svo miklum hagnaði. Í og eftir hrun lækkuð þessi ofurlaun að einhverju leiti. En í dag, tæpum sex árum síðar eru kaupaukar, bónusar og hlutabréfagreiðslur til forstjóra orðin jafn algeng og fyrir hrun og virðist ekkert lát verða á miðað við nýja samantekt ASÍ um laun forstjóranna. Í samantekinni kemur fram að það tekur 5 - 6 verkamenn alla starfsæfina að vinna sér inn laun sem samsvara ofurlaun hjá einum forstjóra.

Í þessu samhengi er rétt að benda á að sum af stórfyrirtækjunum nutu stórfelldra skuldaleiðréttinga eftir hrun og eru N1 og Eimskip gleggsta dæmið. Forstjóri Eimskips var t.d. með um 17 milljónir í laun árið 2013 og forstjóri N1 með ríflega 10 milljónir.  Ef laun forstrjóranna eru sett í samhengi við laun verkafólks á almennum vinnumarkaði þá er forstjóri Eimskips með sömu árslaun og 6 fullvinnandi verkamenn á meðallaunum. Horfum síðan til forstjóra Haga, sem er líklega með hvað flest starfsfólk í samanburði við önnur fyrirtæki á lágmarkslaunum, og skoðum tekjur hans. Árið 2012 var hann með 30 milljónir í árslaun eða sem samsvarar 12 fullvinnandi starfsmönnum t.d. í Hagkaup. Laun æðstu stjórnanda í flestum fyrirtækjum sem eru skráð í kauphöllinni eru á við 5 - 6 fullvinnandi verkamenn. Ef eingöngu Hagar og N1 eru skoðuð sérstaklega kemur fram að af skráðum fyrirtækjum á markaði er launahlutfall milli æðstu stjórnanda og almennra starfsmanna áberandi mest hjá þeim. 

Fyrirtækin eru að skila milljarða hagnaði með dyggri aðstoð stjórnvalda sem hafa afskrifað skuldir þeirra í stóru stíl. Skilaboð til starfsfólks í fyrirtækjum þar sem slík ofurlaun eru greidd, með ríkisaðstoð, hljóta vera skýr, við eigum heimtingu á stærri bita af kökunni. En þá verður starfsfólkið að vera tilbúið að berjast með sínum stéttarfélögum fyrir stærri bitanum.

 

 

Deila