Translate to

Fréttir

Er verktakavinna almennt undir lágmarkslaunum?

Drífa Snædal framkvæmdastjóri SGS skrifar þarfa og mjög athyglisverða grein um heimilsþrif og verktakavinnu á heimasíðu SGS.

"Ef þú greiðir manneskju 2.500 krónur á tímann fyrir að þrífa heima hjá þér ert þú sennilega að greiða undir lágmarkslaunum í landinu. Ef þú tekur 2.500 krónur á tímann fyrir að þrífa heima hjá fólki ert þú ekki að fá greitt sanngjarnt fyrir þína vinnu. Ef þú greiðir eða færð greitt  svart ert þú að brjóta lög.

Heimilisþrif eru algeng og er nóg að fara inn á vefsíðuna bland.is til að sjá líflegan markað þar sem vinna gengur kaupum og sölum fyrir hreint ótrúlega lágar upphæðir. Oft er um að ræða einyrkja og að mér læðist sá grunur að ekki sé allt upp gefið til skatts. Þar með er ekki einungis verið að hafa af starfsfólki réttindi heldur getur verkkaupi verið skaðabótaábyrgur ef vinnuslys verður. Svört vinna er ekki í lagi enda er með henni verið að svindla á samfélaginu og allir eru verr settir ef eitthvað bregður út af...

...Þeir kjarasamningar sem komast næst því að eiga við þrif inni á heimilum eru samningar Starfsgreinasambandsins við Bændasamtök Íslands fyrir fólk sem starfar á bændabýlum. Lágmarkstímakaup þar í dagvinnu er 1.249,06 krónur en launin hækka með hverju árinu sem unnið er og að sjálfsögðu er greitt meira fyrir yfirvinnu og vinnu á stórhátíðum. Fólk sem hefur lokið einhverju námi raðast svo hærra í launatöfluna. Ef tekið er tillit til alls ofangreinds er ljóst að ef greiddar eru 2.500 krónur á tímann fyrir þrif í verktakavinnu er sennilega verið að greiða undir lágmarkslaunum í landinu og það er ólöglegt. Því er von að spurt sé:

Ert þú að fá greitt fyrir þína vinnu?

Er samviskan þín jafn hrein og heimilið eftir aðkeypt þrif? "

Hægt er að nálgast greinina í heild sinni og útreikninga sem henni fylgja á vef SGS.

Deila