Translate to

Fréttir

Hækkun virðisaukaskatts á matvæli strax komin fram

Matvara hefur hækkað umtalsvert í verði undanfarinn mánuð samkvæmt fyrstu niðurstöðum úr verðmælingum verðlagseftirlits ASÍ í matvöruverslunum í kjölfar breytinga á virðisaukaskatti og vörugjöldum. Um áramót hækkaði á virðisaukaskattur á matvörur úr 7% í 11% auk þess sem vörugjöld (s.k. sykurskattur) voru afnumin af sykri og sætum matvörum. 

Ný verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ staðfestir að fjöldi verslunareigenda hefur brugðis hratt við og hækkað matvöru vegna hækkunar á virðisaukaskatti. En því miður er sorglegt að sjá að fjöldi verslanaeigenda hefur ekki lækkað verð á sykruðum vörum í kjölfar lækkunar sykurskattsa um áramót. 

Mest hækkar matvörukarfan í versluninni Víði um 5,2% frá því í lok nóvember sl. sem er umtalsvert meiri hækkun en neysluskattsbreytingarnar um áramót gefa tilefni til. 

Að mati verðlagseftirlits ASÍ má áætla að breytingarnar gefi í heildina tilefni til u.þ.b. 1,5% hækkunar á matarkörfunni.

Matarkarfa ASÍ hækkar minnst í versluninni Kjarval um 0,7% frá því í síðustu mælingu.

Í Nettó, Iceland, Hagkaupum, Nóatúni, Samkaupum-Úrval, Samakaupum-Strax, Kaskó, Kaupfélagi Skagfirðinga og Kaupfélagi Vestur Húnvetninga hefur matarkarfan hækkað um u.þ.b. 2,5% - 3,5% frá því í lok nóvember.

Í verslunum Bónuss, Krónunnar og Tíu-ellefu nemur hækkun matkörfunnar 1% -1,7%.

Nánari umfjöllun er um könnunina á vef ASÍ

Rétt er að vekja athygli á reiknivél þar sem hægt er að kanna hvort breytingar á virðisaukaskatti og vörugjöldum skili sér í lækkun vöruverðs.

Deila