Translate to

Fréttir

Hvetur til sóknar og að barist verði fyrir auknum aflaheimildum frekar en árar verði lagðar í bát

Öflugasta fiskiskip Vestfjarða á Sjómannadegi Öflugasta fiskiskip Vestfjarða á Sjómannadegi

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga hvetur útvegsmenn á Vestfjörðum til að nýta þá möguleika sem gætu opnast með fyrirhuguðum breytingum laga á fiskveiðstjórnarkerfinu til að auka við aflaheimildir á Vestfjörðum. Stór og öflug sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum hafa forskot umfram aðra til sóknar. Þau hafa yfir að ráða öflugustu fiskiskipunum, stærstu og best mönnuðu fiskvinnslustöðvunum og mestri verkþekkingu í sjávarútvegi í fjórðungnum.


Fyrirhugaðar breytingar ættu því að vera tækifæri til aukinnar sóknar með stóaukinni eflingu atvinnulífs þannig að ávinningurinn skili sér sem best til sjómanna og fiskvinnslufólks, enda skapa þeir starfsmenn sjávarútvegsfyrirtækjunum hin raunverulegu verðmæti.
 

Það er slæmt að fyrsti valmöguleiki útvegsmanna á Vestfjörðum skuli vera að ætla segja upp fólki eins og kemur fram í bréfi dagsettu 5. júní í stað þess að nýta þau tækifæri sem gætu skapast í greininni nái breytingarnar fram að ganga. Enda kemur fram í auglýsingum útvegsmannafélaga víðsvegar um land að 30 - 40.000 þorskígildistonn muni liggja lausu.


Þrátt fyrir þau tækifæri sem stjórnarmenn í Verk Vest sjá í framkomnum tillögum þá lýsum við jafnframt yfir verulegum áhyggjum á  því að við framkvæmd lagabreytinganna hafi verið farið óvarlega og teljum að slík vinnubrögð geti haft slæm áhrif á atvinnugreinina til framtíðar.
 

Þá lýsa stjórnarmenn í Verk Vest yfir stuðningi við þær áhyggjur sem koma fram hjá ASÍ verði sjávarútvegsfrumvörpin samþykkt í óbreyttri mynd. En þar kemur fram að óbreytt frumvörp muni:

  • Veikja rekstargrundvöll sjárvarútvegsins. Slíkt mun leiða til þess að gengi krónunnar verður veikara en ella og lífskjör lakari.
  • Veikja stöðu þeirra sem hafa aðalstarf sitt af fiskveiðum og fiskvinnslu.
  • Ýta undir leigubrask og skammtímahugsun í stað þess að setja því skorður.
  • Auka á pólitískar valdheimildir ráðherra, án þess að færð séu sterk rök fyrir að það fyrirkomulag sé heppilegra en skýrar og gagnsæjar reglur.
  • Leggja til fyrirkomulag á ráðstöfun veiðigjaldi til sjávarbyggða sem orkar tvímælis og ýtir undir óréttlæti og mismunun.

Stjórn Verk Vest hvetur útvegsmenn á Vestfjörðum til að láta sjómenn og landverkafólk á Vestfjörðum njóta ávinnings góðrar afkomu í atvinnugreininni í ríkari mæli og ættu í því samhengi að horfa til samherja sinna á norðurlandi í þeim efnum.

Virðingarfyllst,

F.h. stjórnar Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður

Deila