Translate to

Fréttir

Í tilefni umræðu um kjarasamninga

Eftirfarandi pistill hefur verið birtur á heimasíðu Starfsgreinasambands Íslands vegna þess hvernig umræða um kjarasamninga hefur verið að þróast að undanförnu.

"Mikil umræða hefur farið fram í fjölmiðlum og víðar um nýgerða kjarasamninga sem félagsmenn okkar eru þessa dagana að greiða atkvæði um.


Umræða um kjaramál er góð en þó þarf að gæta sanngirni og að fólk geti treyst því að rétt sé farið með. Rétt er að koma því á framfæri að mikil og góð samstaða var innan samninganefndar SGS þegar kröfugerð sambandsins var mótuð. Krafan var að hækka lægstu taxta um 20.000 krónur og önnur laun tækju 7% hækkun.

 

Þarna verður að hafa í huga að Starfsgreinasambandið semur fyrir fólk sem er með lægstu launin á almenna vinnumarkaðnum. Með kröfunni um 7% hækkun var ekki verið að leggja til að hálaunafólk fengi slíka hækkun enda er það fólk ekki innan raða SGS. Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur alltaf hafnað því að kröfugerð sambandsins leiddi til aukinnar verðbólgu enda ber SGS ekki ábyrgð á launaskriði millitekju- og hálaunafólks. Nauðsynlegt er að hafa það í huga í umræðum um kröfugerðir annars vegar og fyrirliggjandi samninga hinsvegar.

Samningaviðræðurnar voru erfiðar og ljóst að Samtök atvinnulífsins ætluðu ekkert að gefa eftir og höfnuðu því lengst af að fara upp fyrir 2% almenna hækkun hvað þá að hækka lægstu laun sérstaklega um ákveðna krónutölu. Þeir samningar sem nú liggja fyrir voru að mati meirihluta samninganefndar SGS eins góðir og hægt var að ná á þessum tímapunkti og var niðurstaðan að leggja þá í dóm almennra félagsmanna."


Deila