miðvikudagurinn 11. september 2013

Málefnalegur Kjaramálafundur Verk Vest

Frá kjaramálaráðstefnu Verk Vest fyrir síðustu kjarasamninga
Frá kjaramálaráðstefnu Verk Vest fyrir síðustu kjarasamninga

Eins og fram hefur komið hér á síðunni og í auglýsingum í fjölmiðlum þá stóð Verkalýðsfélag Vestfirðinga fyrir opnum kjaramálafundi á Hótel Ísafirði í gærkvöldi. Mjög málenfalegar umræður fóru fram á fundinum þar sem farið var yfir stöðu kjaramála og spáð í horfurnar framundan. En fyrir liggur að núgildandi kjarasamningar á almennum vinnumarkaði renna úr gildi þann 30. nóvember næst komandi. Mjög góð vinna fór fram á fundinum og voru lagðar skýrar línur varðandi áherslur félagsins í komandi kjaraviðræðum.

Miðað við þann tón sem var gefinn á fundinum er ekki annað að heyra en skynsemi og raunsæi ráði ríkjum í þeim áherslum sem verða lagðar fram af hálfu félagsins. Rauði þráðurinn er að tryggja kaupmátt lægstu launa í langtíma samningi og verja stöðu heimila með ýmsum hætti. Var þar verið að horfa til breytinga á húsnæðiskerfi ásamt því að skoða möguleika á frystingu verðhækkana og breytingum á skattaumhverfi lág- og millitekjufólks.

Á fundinum var einnig til umræðu samstaða á vinnumarkaði, var þar horft til þess að nauðsynlegt væri að aðildarfélög ASÍ létu reyna á samstöðuna í komandi kjaraviðræðum. Framundan eru kjaramála og formannafundir innan landssambanda ASÍ sem Verk Vest er aðili að. Fyrsti fundurinn verður hjá Landssambandi íslenskra verzlunarmanna þann 13. september. Þá mun samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands eiga vinnufund dagana 19 – 20. september og kjaramálaþing Samiðnar verður einnig haldið 20. september. Má því segja að kjaramálavinna stéttarfélaganna væri að komast á nokkurt skrið.

Samþykkt var að fela Starfsgreinasambandi Íslands, Landssambandi íslenskra verzlunarmanna og Samiðn samningsumboð fyrir hönd félagsins í komandi kjaraviðræðum. Einnig var kosið á þing Starfsgreinasambandsins sem verður haldið á Akureyri dagana 16 – 18. október næst komandi.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.