föstudagurinn 3. febrúar 2012

Nýtt skip til Ísafjarðar

Ísbjörn ÍS-304 kominn í heimahöfn
Ísbjörn ÍS-304 kominn í heimahöfn
1 af 2
Ísbjörn ÍS-304 sem bættist í skipaflota okkar Vestfirðinga fyrir skömmu, kom í heimahöfn á Ísafirði síðdegis í gær. Skipið er um 1000 tonna frystiskip sem gert verður út til úthafsrækjuveiða frá Ísafirði. Ísbjörn ÍS er í eigu rækjuverksmiðjunnar Kampa á Ísafirði og útgerðarfélagsins Birnir ehf. í Bolungavík. En fyrir á útgerðarfélagið Birnir ehf. rækjutogarann Gunnbjörn ÍS og ísfisktogarann Valbjörn ÍS. Vonir standa til að skipið komist til veiða um miðjan mars, en ákveðið var að sigla því til Ísafjarðar og ljúka lokafrágangi á skipinu hér heima og tryggja þannig heimamönnum vinnu við endurbæturnar. Vonir standa til að skipið geti veitt hátt í 2000 tonn af rækju á ári sem hefur gríðarlega jákvæð áhrif á hráefnisöflun fyrir rækjuvinnslu Kampa. Haft er eftir stjórnarformanni Kampa að þetta mun laga hráefnisöflunarstöðu Kampa um 20-25% þannig að þörfin fyrir hráefniskaup verði minni. Koma skipsins mun einnig skapa fleiri störf fyrir sjómenn, en á svona skipi sem er úti þrjár vikur í senn eru tvær áhafnir þannig að gera má ráð fyrir 22-24 störfum í framtíðinni. Tryggari hráefnisöflun mun einnig skjóta styrkari stoðum undir starfsöryggi landverkafólks í rækjuvinnslu Kampa. Verkalýðsfélags Vestfirðinga færir áhöfn og eigendum árnaðaróskir og velfarnaðar með hið nýja skip.

Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.