Svört vinna mest á Vestfjörðum en minnst á Norðausturlandi !

Í tengslum við gerð kjarasamninga í vor skapaðist umræða um hvernig minnka mætti svarta atvinnustarsemi og bæta viðskiptahætti í landinu. Árangurinn var átaksverkefnið „Leggur þú þitt af mörkum?" sem unnið var í samvinnu Ríkisskattstjóra (RSK), ASÍ og SA. Heimsótt voru yfir tvö þúsund lítil og meðalstór fyrirtæki í sumar og fengu 55% þeirra athugasemdir. Rætt var við sex þúsund starfsmenn og reyndust 12% þeirra vinna svart, flestir á Vestfjörðum eða 18,5%.  Vert er að vekja á því athygli að þrátt fyrir að einna minnst atvinnuleysi sé á Vestfjörðum, þá skuli hlutfall þeirra sem vinna svart vera eins hátt og kemur fram í skýrslunni. Tap þjóðarbúsins vegna svartrar atvinnustarfssemi nemur 13,8 milljörðum á ári.

Helstu niðurstöður:

Áberandi var hversu mikið þekkingarleysi er á markmiðum og innihaldi laga og reglugerða um tekjuskráningu, virðisaukaskatt og staðgreiðslu sem og á kjarasamningum. Þetta eru alvarlegir áhættuþættir sem líklegt er að leiði til rangrar meðferðar á sköttum, gjöldum og kjarasamningsbundnum réttindum. Reyndust vera einhver frávik frá réttri framkvæmd hjá yfir helmingi fyrirtækja sem heimsótt voru eða í 55,3% tilfella.

Niðurstöður átaksins benda til þess að vantaldir skattar, gjöld og tekjur sem ekki skila sér til réttra aðila og tengjast svartri vinnu séu á ársgrunni 13,8 milljarðar króna, eingöngu vegna fyrirtækja sem eru með veltu undir 1 milljarði króna á ári.


Svört vinna er 12% Niðurstaðan var að 737 (12,0%) einstaklingar af 6.167 starfsmönnum sem skráðir voru reyndust vera í svartri vinnu. Þessir starfsmenn voru hjá 16,0% fyrirtækja sem heimsótt voru.

Hvar eru flestir í svartri vinnu? Niðurstaða þessa verkefnis sýnir að svört vinna er yfirgnæfandi mest í rekstri með veltu undir 150 milljónum króna á ári. Þar er að finna 91% af þeirri svörtu vinnu sem mælist samkvæmt reiknilíkani ríkisskattstjóra eða samtals 12,6 milljarðar.3

Töpuð réttindi Ekki aðeins skila tekjur sér ekki í sameiginlega sjóði landsmanna, heldur eru afleiðingarnar lakari kjör einstaklinga og töpuð réttindi á vinnumarkaði.

Skortur á úrræðum - Til þess að stærsti hlutinn af þeim 13,8 milljörðum skili sér þurfa eftirlitsaðilar virkari úrræði. Rannsóknarúrræði eru til staðar, en þau henta illa í einföldum eftirlitsstörfum eins og þeim sem átakið beindist að. Skortur er á eftirlitsúrræðum sem beinast að einföldum brotum á lögbundnu verklagi við tekjuskráningu, skilum á virðisaukaskatti og launatengdum gjöldum. Þörf er lagabreytinga sem gætu skilað milljörðum á hverju ári í sameiginlega sjóði.

Þekkingarleysi - Áberandi er hve skortir á þekkingu á markmiðum og innihaldi laga og reglugerða um tekjuskráningu, virðisaukaskatt og staðgreiðslu, sem og á efni kjarasamninga.

 

Hér má nálgast helstu niðurstöður skýrslunnar.Landssambönd

Verkalýðsfélag Vestfirðinga er aðili að eftirtöldum landssamböndum innan ASÍ.