Translate to

Fréttir

Þriðja bindi Vindur í seglum III komin út - útgáfufagnaður í safnahúsinu á Ísafirði

Vindur í seglum III, þriðja bindi af sögu verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum er komin út. Höfundur er Sigurður Pétursson sagnfræðingur, en útgefandi Alþýðusamband Vestfjarða.

Verkalýðsfélag Vestfirðinga býður félagsmönnum til útgáfufagnaðar í safnahúsinu á Ísafirði laugardaginn 12. desember kl.17:00. Höfundur bókarinnar mun lesa valda kafla úr bókinni og eru allir boðnir velkomnir á meðan húsrúm leifir.

Vindur í seglum III fangar lesandann og fleytir honum á slóðir vestfirskra sjómanna og verkafólks á 20. öld. Bókin býður lesendum í ferðalag um Vestfirði frá tímum segla og ára til aldar véla og verksmiðja. Hér segir frá Rauða bænum Ísafirði, átökum og athafnalífi, baráttu verkafólks og sjómanna, brottnámi Hannibals frá Bolungarvík, harðvítugu sjómannaverkfalli, Hesteyrarhneykslinu, heimsókn Staunings til Ísafjarðar og byggingu Alþýðuhússins. Í bókinni koma við sögu hundruðir Vestfirðinga, karla og kvenna, verkafólks og sjómanna, vélstjóra, iðnaðarmanna og verslunarfólks, sem þátt tóku í verkalýðsbaráttu síðustu aldar. Bókin prýða yfir 250 ljósmyndir.

Vindur í seglum III fjallar um Alþýðusamband Vestfjarða á tímabilinu 1931-1970 og sögu verkalýðsfélaga á Ísafirði og við Ísafjarðardjúp, í Hnífsdal, Bolungarvík, Súðavík og Hesteyri. Sögu félaganna í Vestur-Ísafjarðarsýslu, Barðastrandarsýslu og Strandasýslu hafa áður verið gerð skil í öðru bindi verksins og í fyrsta bindi var fjallað um þær breytingar í atvinnu- og félagsmálum sem mótuðu upphaf og fyrstu skref verkalýðssamtaka á Vestfjörðum.

Vindur í seglum er saga fólksins sem byggði vestfirska bæi og þorp á mótunarskeiði íslensks þjóðfélags. Með hugsjónir jafnréttis og samstöðu að vopni vann alþýðan sér þegnrétt í samfélaginu.

 

Deila