Pistlar

Gífurleg hækkun stýrivaxta - óskiljanleg ákvörðun !

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga. Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Stjórn seðlabankans hefur tekið þá ákvörðun að veita atvinnulífi landsmanna náðarhöggið með 550 punkta hækkun stýrivaxta. Var vandinn ekki nægur þótt þessi gjörningur þyrfti ekki að bætast ofan á ?  Nú er það ljóst að ein helsta krafa alþjóða gjaldeyrissjóðsins um lánafyrirgreiðslu væri umtalsverð hækkun stýrivaxta.  Í ljósi atburða síðustu vikna þá getur laskað atvinnulíf landsmanna ekki tekið á sig frekari áföll sem hækkun stýrivaxta kemur til með að hafi í för með sér. Fjármálaráðherra boðar að hækkunin vari eingöngu í stuttan tíma, kannski er það sá tími sem atvinnulíf okkar þolir ekki við núverandi aðstæður? Hætta er á að fjöldagreiðslustöðvun fyrirtækja muni fylgja boðuðum hópuppsögnum um næstu mánaðarmót í kjölfar þeirra vaxtahækkunar sem nú hefur verið boðuð.

 

Sveitafélög, sem eru lífakkeri margra í atvinnumálum, sjá ekki fram á að geta fjármagnað almennan rekstur og þjónustu,  hvað þá nauðsynlegar viðhalds- eða nýframkvæmdir. Mörg sveitafélög eru komin að fótum fram hvað skuldsetningu varðar og þessi vaxtahækkun mun ekki auðvelda þeim róðurinn. Til þess að koma í veg fyrir algjört hrun atvinnulífs í sveitafélögum þá þarf að hefjast handa strax við viðhald og uppbyggingu sem veita íbúum atvinnuöryggi og tiltrú á að betri tímar séu í sjónmáli. Þar ber stjórnvöldum að sýna að hugur fylgi máli og koma sveitafélögum til tafalausrar aðstoðar í þeim vanda sem nú er við að eiga.

 

Kaupmáttur launa hefur rýrnað með ógnar hraða undanfarnar vikur, sú þróun mun verða enn áþreifanlegri þegar veikir möguleikar fyrirtækja um að halda úti atvinnu verða að engu gerð með þessari ákvörðun. Í framhaldi af því hljótum að spyrja okkur hvað varð um þá skjaldborg sem ætlunin var að slá um heimili landsmanna ?  Þessi margumtalaða skjaldborg virðist eingöngu vera til í orðagjálfri einstaka ráðamanna en ekki þegar á reynir. Skuldabyrgði heimilanna kemur til með að aukast gífurlega með frekara vaxtaokri, afleiðingin verður sem olía á það óánægjubál sem nú logar í íslensku samfélagi.

 

Gríðarlegur verðbólguhraði tekur líka sitt af innkomu heimilanna, matvara og aðrar nauðsynjar hafa hækkað gífurlega undanfarnar vikur þrátt fyrir ítrekaða hvatningu um að hleypa ekki óvissu í gengismálum út í verðlagið. Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að setja gróðasjónamiðið til hliðar og hugsa um samfélagsheildina. Fyrirtæki og opinberir aðilar verða að leggjast á árar um að hleypa þessari vaxtahækkun ekki út í verðlagið. Afleiðingarnar ættu öllum að vera ljósar, verðbólgupúkinn myndi fitna sem aldrei fyrr.

 

Nú sem aldrei fyrr er nauðsyn á þátttöku ríkisvaldsins með kraft og áræðni í ákvarðanatöku svo úr rætist í atvinnulífi landsmanna. Ef ekki fara að koma raunhæfar lausnir á þeim vanda sem nú við er að glíma er hætta á algjöru skipbroti atvinnulífs á Íslandi með skelfilegum afleiðingum.  Sú vá sem nú er fyrir dyrum verður ekki leyst nema allir spili í sama liði, hroki og skeytingarleysi gagnvart skoðunum almennings verður að víkja til hliðar, hér eru meiri hagsmunir í húfi en svo að hugmyndir almennings um mögulegar lausnir verði áfram virtar að vettugi.

 

 

Deila