Translate to

Pistlar

Hátíðarræða Bergvins Eyþórssonar á 1. maí 2017

Kæru félagar. Í dag, 1. Maí, komum við saman og fögnum alþjóðlegum baráttudegi verkafólks, deginum okkar. Mig langar til að byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með daginn.

Ein af grunnþörfum mannsins er að vera maður með mönnum, að líða vel með sjálfan sig. Það eru allir fæddir jafnir, og sama hvar við lendum í þjóðfélagsstiganum erum við eftir allt saman öll bara menn.

Á fyrstu árum starfsævi minnar kynntist ég vinnumarkaðnum á ógleymanlegan hátt. Þá var mikil vinna og allir sem vettlingi gátu valdið fengu að vinna, og kúltúrinn einkenndist af vinnugleði og samstöðu á vinnustað.

Mér er það minnisstætt að þegar við strákarnir þurftum að vinna fram á kvöld mætti framkvæmdastjóri og eigandi fyrirtækisins færandi hendi til okkar á bryggjuna með kók og Prins Póló. Svo settist hann niður með okkur og spjallaði meðan við gæddum okkur á veigunum.

Annar vinnuveitandi sem ég vann fyrir nokkru seinna, bauð vinum sínum reglulega til veislu, og bauð þá starfsmönnum sínum með. Þar sátu allir saman og skemmtu sér á jafnréttisgrundvelli. Allir voru með, og þessi tilfinning skilaði sér í vinnuna þar sem allir unnu sem einn og öllum leið vel í vinnunni. Þarna voru allir menn með mönnum.

Í dag heyrir þetta sögunni til. Sum fyrirtæki senda starfsmönnum sínum ekki einu sinni jólakort til að þakka samstarfið á líðandi ári! Hvað segir það okkur? Erum við ekki lengur menn með mönnum?

Ágætu fundarmenn. Hér á Íslandi búum við við fjármagnsdrifið hagkerfi. Sama kerfi og Adam Smith kynnti fyrir 240 árum síðan. Til að búa til pening, þarf pening. Þar af leiðir að til þess að búa til verðmæti þurfa fjármagnseigendur og launþegar að vinna saman, því öðruvísi er ekki hægt að skapa verðmæti.

Þegar verðmætin hafa verið sköpuð þurfa svo fjármagnseigendurnir og launþegarnir að skipta milli sín afrakstrinum. Þetta kerfi veldur því að til verður markaðsverð á vinnuafli, og gegnum tíðina hefur það verið hlutverk verkalýðshreyfingarinnar að vinna að því að fá kökunni skipt á réttlátan máta. Sú barátta krefst samstöðu, og það er sú samstaða sem við erum að fagna í dag, á baráttudegi verkalýðsins.

Fyrir hartnær 170 árum skrifuðu Karl Marx og Frederik Engels Kommúnistaávarpið. Því var ætlað að mynda samstöðu meðal verkafólks til að berjast fyrir sanngjarnari hlut af þeim verðmætum sem verkamenn skapa.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, launafólk oft þurft að berjast og mikið til unnist. Ekki er hægt að bera stöðu okkar við það sem þá var. Staða okkar í dag er samt ekki ólík því sem þá var að því leytinu til að launþegar fá enn of lítið í sinn vasa af þeim verðmætum sem þeir skapa. Eftir 170 ára reipitog höldum við enn í endann, og það er átak að halda stöðunni, og ennþá meira átak að fá stærri sneið af kökunni.

Verðmætasköpun á Íslandi er gífurleg og hefur landsframleiðsla tvöfaldast á síðastliðnum tíu árum. Á sama tíma hafa laun aukist um 51 prósent. Kakan hefur stækkað til muna, en því miður virðist okkar sneið ekki stækka í samræmi við það.

Dæmi eru um að hagnaður fyrirtækja sé meiri en allur launakostnaður þeirra. Meiri en allur launakostnaður þeirra, þar með talið laun stjórnenda, sem eru í sumum tilfellum eigendur. Samt er sagt við okkur að ef við förum fram á hærri laun berum við ábyrgð á óðaverðbólgu í þjóðfélaginu og að fyrirtækin standi ekki undir auknum launakostnaði.

Að hlusta á þetta! Maður trúir ekki sínum eigin eyrum!

Á meðan allsherjar sátt virðist vera um að fjármagnseigendur sogi til sín þau verðmæti sem verða til í landinu og flytji þau úr landi í skattaskjól er gerð þjóðarsátt um að hinn almenni launamaður verði að halda kröfum sínum í skefjum. Meir að segja er okkur hótað því að flytja vinnuna okkar úr landi ef arðgreiðslur fyrirtækja minnki.

Hvaða vitleysa er þetta???

Nú í febrúar síðastliðinn lauk lengsta sjómannaverkfalli sögunnar. Ég var þess heiðurs aðnjótandi ásamt fleirum að semja við útgerðarmenn. Það sem ég upplifði í þessari samningalotu kom mér svo á óvart að ég á aldrei eftir að gleyma því.

Í desember settumst við niður með útgerðarmönnum og settum fram kröfur sem í heild sinni, fyrir alla útgerðarmenn á landinu, voru metnar á 3.750 milljónir á ári. Útgerðarmenn, sem skiluðu 75 þúsund milljónum í hagnað árið áður, höfnuðu öllum okkar kröfum, sögðu það verða banabita útgerðanna að greiða þetta.

Síðan kynntu útgerðarmenn í fjölmiðlum að sjómenn væru að valda tapi á útflutningstekjum upp á 640 milljónir á dag. Síðan sátu þeir í verkfalli í 66 daga, og töpuðu, samkvæmt eigin útreikningum 42.240. milljónum. Það er meir en 11 sinnum meir en ýtrustu kröfur sjómanna hljóðuðu upp á. Áætlað tap alls þjóðarbúsins er allt að 85.800 milljónum í þessu verkfalli.

Maður spyr sig. Þeir sem taka svona ákvarðanir, hversu hæfir eru þeir til að vera handhafar kvótans okkar? Stjórnvöldum ber skylda til að sjá til þess að kvótinn, sameign okkar allra, skili sem mestu í þjóðarbúið, stjórnvöld bera ábyrgð á því. Ef handhafar kvótans treysta sér ekki til að standa undir þessari kröfu okkar, verða stjórnvöld þá ekki að fela einhverjum öðrum þetta mikilvæga verkefni?

Ágætu fundarmenn. Yfirskrift dagsins er húsnæði fyrir alla. Mikill skortur er á húsnæði. Mikill munur á framboði og eftirspurn. Húsnæðismarkaðurinn er með svo mikla slagsíðu að nú þurfa allir að gera sig klára í bátana.

Fjármagnið sem við búum til með vinnunni okkar rennur út úr fyrirtækjunum í formi arðs inn í leigufélög sem mergsjúga þá sem minna mega sín. Meir að segja lífeyrissjóðirnir sem eru í okkar eigu, ...peningarnir okkar, eru notaðir til að féfletta almenning sem einhversstaðar verður að búa. Í sumum tilfellum er þetta skrúfstykki í boði stjórnvalda sem hafa selt leigufélögum íbúðir, í eigu okkar landsmanna, langt undir eðlilegu verði. Í boði stjórnvalda sem hafa gerst sek um algert vanhæfi til að bregðast við þessum vanda.

Af hverju hafa lífeyrissjóðir okkar landsmanna ekki stofnað eigin fasteignafélög til að byggja húsnæði fyrir landsmenn? Þeir gætu svo leigt húsnæðið á eðlilegu verði og leitast við að koma jafnvægi á leigumarkaðinn.

Nú er íbúðaverð að nálgast góðærisástandið. Við heyrum og lesum fréttir um aukinn kaupmátt, en samt hafa íslenskir launþegar í fullri vinnu ekki efni á að hafa þak yfir höfuðið. Hvers konar ástand er það? Höfum við í alvöru ekki komist lengra en þetta á síðustu 170 árum?

Kakan er nógu stór fyrir alla. Við þurfum bara að halda áfram, öll sem eitt, að berjast fyrir okkar sneið.

Ef við sofnum á verðinum borðar einhver kökuna okkar og drekkur mjólkina okkar með.

Kæru félagar. Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér. Samstaða alla leið!

Til hamingju með daginn.

 

 

Deila