Translate to

Pistlar

Hátíðarræða Kristins H. Gunnarssonar 1.maí 2014

Stærsta vandamálið er vaxandi ójöfnuður

 

 

Góðir hátíðargestir og baráttufélagar.

 

Ég vil óska ykkur öllum til hamingju með baráttudag hins vinnandi manns. Samtök launamanna hafa lyft Grettistaki öllum almenningi til hagsbóta með samtakamætti sínum, pólitísku starfi og óbilandi sannfæringu fyrir  því að unnt var að skapa betra og réttlátara þjóðfélag,  en það sem fyrir var þegar verkalýðshreyfingin tók sín fyrstu spor fyrir hartnær heilli öld.

 

Þá var þjóðfélag stéttaskiptingar, njörvað í ríkidæmi og valdi fárra yfir hugum, kjörum og aðstæðum almennings, sem var í hlutverki þjónustufólksins  sem vinnuhjú, atkvæðislaus, réttlaus og meira og minna háð duttlungum óðalsbænda og faktora um sitt eigið líf.

 

Þessu var breytt en það tók langan tíma og sigrarnir komu í áföngum einn af öðrum. Þjóðfélagsleg forréttindi fárra útvalinna voru afnumin, efnahagslegum gæðum var dreift um allt þjóðfélagið og jöfnuður milli þjóðfélagshópa varð einn sá mesti í heiminum, réttindi urðu almenn  og óháð stöðu og efnahag einstaklingsins í þjóðfélaginu.

Jafnréttið  og jöfnuður er forsendan fyrir þeim gríðarlegum framförum sem þjóðfélagið hefur tekið á umliðinni öld. Sviptur því  er maðurinn hvorki frjáls né fullvalda yfir eigin lífi.  Því aðeins þróast þjóðfélagið fram á við og bætir stöðu og kjör hvers manns að sérhver geti verið frjáls og óttalaus í hugsun sinni og skoðun og búi við efnahag sem gerir það kleift.

Jöfnuður er  nauðsynlegur í efnahagslegum skilningi, en það er algerlega óhjákvæmilegt að valdinu í þjóðfélaginu sé þannig fyrirkomið og dreift að jafnréttið eigi við um það líka. Jafnvægi þarf að vera milli þegnanna og skýrar skorður þurfa að afmarka völd og áhrif einstakra hagsmunahópa.

Valdajafnvægi eða að minnsta kosti takmörkun á samþjöppun auðs og valds er helsta trygging almennings fyrir því að samheldið þjóðfélag byggt á jafnrétti og jöfnuði þróist áfram.  Gætum að því að ekkert er eilíft og það  á við um þann grundvöll sem verkalýðshreyfingin hefur með baráttu sinni náð fram og íslenskt þjóðfélag hvílir á. Það sem hefur áunnist getur tapast ef menn halda ekki vöku sinni.

Á síðustu áratugum hefur orðið róttæk breyting sem er að færa þjóðfélagið aftur til fyrri tíma  í ójöfnuði auðs og valds.  Svo er nú komið að vaxandi ójöfnuður er stærsta þjóðfélagslega vandamálið sem við er að glíma. Efnahagslegur ójöfnuður hefur aukist í risaskrefum og samþjöppum valds á fáar hendur er orðin slík að það ógnar efnahagslegu og andlegu frelsi launamanna um land allt. Hvergi eru merkin um ójöfnuðinn skýrari en einmitt við sjávarsíðuna  eins og fólkið í vestfirsku sjávarplássunum hefur hvað eftir annað fengið að reyna á eigin skinni, nú síðast á Þingeyri. Helstu orsakir breytinganna liggja inn í sjávarútveginum. Þar er að finna skýringarnar á ósanngirninni, óréttlætinu og ójöfnuðinum sem bitnar á almenningi.

 

Samkvæmt upplýsingar frá embætti Ríkisskattstjóra  varð hrikaleg eignasöfnum fárra fyrir hrun. Á aðeins þremur árum, frá 2004 til 2007,  jukust eignir landsmanna um tæplega 1600 milljarða króna eða nálægt  einni landsframleiðslu. Skiptingin milli landsmanna var hins vegar fjarri því að vera réttlát.Eignir þeirra sem voru í lægri helmingi eignastigans rýrnuðu um 16%. Efri helmingurinn fékk þeim mun meira í sinn hlut og allra ríkasti hlutinn fékk 22% af allri eignaaukningunni í sinn hlut. Þetta eina 1%, um 1800 fjölskyldur , eignuðust nærri 200 milljónir króna,  hver og ein, bara á þremur árum.

 

 Tekjudreifingunni var kollvarpað á fáum árum.  Árið 1995 fékk tekjuhæsta 1% heimilanna  3.3% af heildartekjunum,  en árið 2007 var hlutur þeirra orðinn hvorki meira né minna en 21% af öllum tekjum landsmanna. Þessi fámenni hópur landsmanna liðlega sexfaldaði hlut sinn á 12 árum. Það voru fyrst og fremst tekjur af kvóta og hlutabréfum sem  sköpuðu vaxandi ójöfnuð í tekjum. Á árunum fyrir hrun voru færðar 400 milljarðar króna út úr sjávarútveginum til eiganda fyrirtækjanna.

 

Eftir hrun jókst tekjujöfnuður á nýjan leik. En ekki er allt sem sýnist. Breytt skattastefna þáverandi stjórnvalda stuðlaði að auknum jöfnuði en mestu máli skipti var að skuldsetning fyrirtækjanna var orðin svo mikil að það varð að grynnka á skuldastabbanum um sinn. Nú eru komin fram merki um það að eigendurnir geti farið að hefja útgreiðslu til sín á nýjan leik og þá mun tekjuójöfnuðurinn snúast skjótt í átt til þess sem var orðið fyrir hrun. Sjávarútvegurinn skilar um 80 milljörðum króna á hverju ári í afgang Þessar miklu tekjur deilast á tiltölulega fáa einstaklinga.  Um 20 fyrirtæki ráða yfir um 70% alls kvóta. Aðeins fáein hundruð manna eiga þessi fyrirtæki og líklega færri en 100 sem hirða lungann af gróðanum og ráða mestu um þróun þjóðfélagsins.

 

Nýjasta dæmið er frá sölu útgerðarfyrirtækis í Hafnarfirði. Eignir þess umfram skuldir eru taldar vera um 13 milljarðar króna, og þar af er andvirði kvótans langstærsti hlutinn.  Þeir sem eru að selja hafa haft góðar tekjur af fyrirtækinu  um áratugaskeið í formi launa og arðgreiðslna, en fá nú einhvers konar starfslokagreiðslu til viðbótar. Fjárhæðin dugar til þess að greiða hjónum 1 mkr á mánuði í framfærslueyri næstu 1000 árin eða fram til ársins 3014.  Hver þarf lúxuslífskjör næstu 10 aldirnar?

 

Er von að spurt sé hvers konar þjóðfélag það er sem lætur svona viðgangast.  Hrunið varð ekki bara í fjármálakerfinu með falli bankanna. Það varð líka siðferðilegt hrun. Svona græðgi og sérhyggja yrði aldrei liðin í eðlilegu þjóðfélagi. Leiðin út úr hruninu er ekki að endurtaka 2007 hugarfarið og endurskapa 2007 fölsku lífskjörin heldur að endurstilla normin í þjóðfélaginu. Réttlæti, sanngirni og samábyrgð þurfa að fá fyrra innihald.

 

Þetta er stóra viðfangsefni verkalýðshreyfingarinnar í dag, að ráðast að rótum vaxandi ójafnaðar í þjóðfélaginu. En það er ekki bara tekju- og eignaskiptingin sem þarf að leiðrétta, það er valdaójöfnuðurinn sem er höfuðviðfangsefnið. Það eru völd og áhrif fáeinna hundruða manna í þjóðfélaginu sem þarf að brjóta á bak aftur. Hin nýja yfirstétt er fólkið, sem í krafti auðsins sem kvótakerfið færir þeim, hefur eignast arðvænleg fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum, ræður  áhrifamiklum fjölmiðlum, ræður og rekur sjómenn jafnt sem Seðlabankastjóra og drottnar yfir lífi fólks í hverju byggðarlaginu á fætur öðru og það er fólkið sem tekur upp símann og hringir í stjórnmálamennina og segir þeim fyrir verkum.

 

Valdasamþjöppunin birtist þegar  eigandi sjávarútvegsfyrirtækis lokar fiskvinnslu á Dalvík af því honum líkar ekki gerðir Seðlabankans sem rannsakar útflutning fyrirtækisins.  Valdasamþjöppunin kemur líka fram í því að eigandi sjávarútvegsfyrirtækis í Ísafjarðarbæ lætur einn togara fyrirtækisins landa í öðru sveitarfélagi til þess að sýna vanþóknun sína á því að bæjarstjórnin varð ekki við kröfu hans um stuðning við áróðurherferð LÍÚ.  Valdasamþjöppunin og bág staða launafólks kemur kannski skýrast fram í tilkynningu eigenda fyrirtækis sem starfar í fjórum byggðarlögum, þar með talið á Þingeyri að nú verði lokað og fólkið verði að flytja til Grindavíkur ef það vilji halda vinnunni. Handhafi kvótans hefur einn allan rétt og á hann einn öll verðmætin. Starfsfólkið er eins og hvert annað réttlaust vinnhjú 19. aldarinnar sem varð að sitja og standa eins og því er sagt ef það vill halda vistinni.

 

Það þarf ekki að loka á Þingeyri, Djúpavogi eða Húsavík. Ytri aðstæður gefa ekki tilefni til breytinga. Ekkert hefur breyst í náttúrunni. Fiskimiðin eru áfram gjöful á sínum stað. Það verður áfram hagkvæmt að veiða frá Vestfjörðum  og áfram hagkvæmt að vinna fiskinn þar.  Á árunum 1991 - 2009 var að jafnaði um 33%  alls þorskafla landsmanna veiddur á miðunum frá Breiðafirði að Horni og um 25% alls ýsuafla og það mun ekki breytast. En útgerðin verður hins vegar ekki eins hagkvæm og áður.

 

Það er kerfið sjálft sem veldur þessari röskun á eðlilegu jafnvægi valdsins í þjóðfélaginu. Sú tilhögun að verðmætustu réttindum þjóðarinnar hefur verið síðasta aldarfjórðunginn úthlutað ótímabundið til útvalinna í þjóðfélaginu og þeim leyft að ráðstafa réttindunum eins og þeim best hentar án nokkurra skuldbindinga við starfsfólk eða almenning er orsökin að þróuninni. Úthlutunarkerfið er rót vandans, það er krabbameinið sem er að éta upp innri gerð samfélagsins og er að eyðileggja jafnt og þétt starf verkalýðshreyfingarinnar í heila öld. Sjómenn og annað starfsfólk í sjávarútvegi er varnarlaust og undir hæl handhafa kvótans. Það er vegið gróflega að rétti launamannsins til þess vera frjáls í orðum sínum  og athöfnum og að vera sjálfstæður þátttakandi í þjóðfélaginu á jafnréttisgrundvelli.

 

Mest hefur borið á deilum um veiðigjaldið, hversu hátt það eigi að vera. Vissulega er mikilvægt að leiðrétta tekjuójöfnuðinn með gjaldtöku. Það verður best gert með því að nota þær aðferðir sem útgerðarmenn sjálfir hafa komið upp, þ.e. að þeir greiði markaðsverð fyrir heimildirnar. Veiðigjaldið er komið á og útgerðarmenn hafa óumdeilanlega sannað að fyrirtækið geta borið gjaldið. Það er það komið til að vera og spurningin er aðeins hvernig á að innheimta það og hverjum á að greiða. Í stað þess að greiða hver öðrum eiga þeir að greiða hinu opinbera. Það á enginn einstaklingur þessi verðmæti hvað sem hann heitir. 

 

Tekjur af slíku gjaldi fyrir veiðiréttinn á Vestfjarðamiðum einum gætu numið um 15 milljörðum króna á ári. Eðlilegt er að skipta þessum tekjum jafnt milli ríkisins og samfélaganna.  

 

Það verður að gera þær breytingar að veiðirétturinn sé bundinn tilteknum miðum og að þeir sem fá að nýta hann um stundarsakir geti hvorki selt réttinn né flutt til annarra miða.   Það verður líka að opna fyrir samkeppni um veiðiréttinn með almennum reglum um jafnræði. Þá verður að taka skref í átt til meiri  markaðsverðlagningar á fiskinum með sölu á markaði. Vestfirðingar eiga að  lýsa því yfir að þeir eigi afnotaréttinn til Vestfjarðamiða til jafns við ríkið og gera kröfu um að hann verði staðfestur í stjórnarskrá landsins. 

 

Að nokkru leyti er verkalýðshreyfingin komin aftur á byrjunarreit. Það þarf að vinna aftur það þjóðfélag sem frjáls og óþvingaður einstaklingur þrífst og dafnar í. Leiðin að því er í gegnum jöfnuð  í pólitísku og efnahagslegum tilliti. Jafnrétti og jöfnuður er leiðin að réttlátu  þjóðfélagi til framtíðar.

Deila