Translate to

Pistlar

Hugleiðing vegna fundar nefndar um atvinnulíf á Vestfjörðum

Það var ekki annað að heyra á orðum nefndarmanna að á félagssvæði Verk - Vest eigi að fylla upp í þau störf sem þegar hafa tapast, jafnt frá grunnatvinnuvegunum sem öðrum, með opinberum störfum.  Mjög er rætt um að koma þurfi til viðhorfsbreytinga sem skýtur þó skökku við, þar sem ekki á að hefja vinnuna við tilfærslu starfa á Vestfjörðum heldur á höfuðborgarsvæðinu.

Mjög ber á þeirri hugsun að þessi störf geri kröfu um sérfræðimenntun eða þá mjög sérhæfða þekkingu þar sem krafa verði gerð um æðri menntun. Ekkert var rætt um möguleika á vexti sprotafyrirtækja eða um hvatningu  einkaframtaks. 

 

Lítið var talað um afleidd störf eða störf tengd öðru en opinberum lausnum, og var nokkuð undarlegt að heyra að nefndin virðist ekki taka til umfjöllunar hugmyndir nema þær væru fullunnar og vel rökstuddar, bæði um hvernig þær ætti að framkvæma og eins varðandi framtíðaráform, eins og t.d. hugmyndin um olíuhreinsunarstöðina.

 

Þá var öll umræða um lækkun eða hagræði á flutningskostnaði til og frá Vestfjörðum svæfð eða eytt með tali um breytt hugarfar. Ekki fengust svör um strandsiglingar þrátt fyrir nokkuð ítrekaðar fyrirspurnir fundarmanna. Lítið var rætt um þau störf sem þegar hafa horfið af svæðinu, hvorki þau opinberu né í framleiðslugreinum okkar, en meira var talað um þau 80 opinberu störf sem væru rétt handan við hornið fyrir Vestfirðinga.

 

Í ljósi nýliðinna atburða á Flateyri - Kambur -, Bolungavík - Bakkavík - og á Ísafirði -Marel - hljóta ráðamenn þjóðarinnar að sjá að ekki verður fyllt upp í þau störf sem tapast hafa í framleiðslugreinum Vestfirðinga með því að bjóða eingöngu upp á opinber störf. Þó eru nokkri ljósir punktar í umræðunni eins og uppbyggingin sem er í gangi á Bíldudal og það að hluti aflaheimilda Kambs virðast ætla að enda hjá fyrirtækjum hér á Vestfjörðum.

 

Mikill þungi var í orðum nefndarinnar um breytingu á hugarfari, en  þá þarf sú breyting að verða á báða bóga. Það verður að auðvelda þeim framleiðslufyrirtækjum sem hér eru í rekstri  við að koma framleiðsluvörum á markað án þess að til komi óheyrilegur flutningskostnaður. Þar þurfa ráðamenn þjóðarinnar að gera stórátak til að gera fyrirtæki á Vestfjörðum betur samkeppnishæf.  Sömuleiðis verður að gera stórátak til að tryggja að sem mest af sjávarafurðum okkar Íslendinga komi til vinnslu í landi en verði ekki fluttar erlendis til fullvinnslu þar. En með því kerfi sem er í gangi í sjávarútvegi landsmanna er verið að kippa stoðunum undan landvinnslu sjávarafurða á Íslandi.

Finnbogi Sveinbjörnsson - formaður Verk Vest

Deila