Translate to

Pistlar

Örvun hagkerfisins nauðsynleg

ljósm. Ragnar F. Valsson ljósm. Ragnar F. Valsson

 

Undanfarið hafa staðið yfir viðræður á milli samninganefndar ASÍ og Samtaka atvinnulífsins um endurskoðun kjarasamninga á almennum markaði. Fjölmargir standa á hliðarlínunni og ráða samninganefndum heilt um hvert skuli stefna og hvað atriði skuli helst leggja áherslu á. Eitt er þó öllum ljóst að hinn almenni launamaður hefur orðið fyrir mikilli tekjurýrnun á því tæpa ári sem er liði frá því skrifað var undir kjarasamninga á almennum markaði. Áherslur launþegahreyfingarinnar eru því skýrar, stöðugleiki á vinnumarkaði og nauðsyn þess að viðræður muni skila umsömdum hækkunum í aðra hönd að lágmarki.

 

Því miður blasir sá raunveruleiki við okkur að atvinnulífið hefur líka orðið fyrir miklum áföllum og því ekki líklegt til stórræðanna að óbreyttu. Þegar þannig árar er nauðsynlegt að ríkisstjórnin og forustumenn sveitafélaga geti komið að borðinu með raunhæfar tillögur til örvunar hagkerfisins, atvinnulífinu og launþegum til hagsbóta. Forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa gefið í skyn að þar á bæ sé ekkert svigrúm til þess konar aðgerða, þess í stað hefur verið boðaður niðurskurður framkvæmda á ýmsum sviðum sem því miður munu bitna enn frekar á atvinnu- og efnahagslífi þjóðarinnar.  Afleiðingar aðgerðanna mun aðeins skila okkur einu, algjöru frosti á vinnumarkaði og við núverandi aðstæður gæti það leitt til þjóðargjaldþrots. 

 

Nauðsynlegt er að skoða hvort ekki væri rétt að fresta kostnaðarsömum framkvæmdum sem krefjast lítils vinnuafls, þess í stað yrði farið í mannaflsfrekar framkvæmdir við viðhald og endurbætur ýmiskonar, jafnvel nýframkvæmdir sem ekki væru hlutfallslega eins dýrar. Mannaflsfrekar framkvæmdir er það sem þjóðin þarf, en ekki kostnaðarsamar framkvæmdir sem þörf er að bjóða út á evrópska efnahagssvæðinu. Þá er áríðandi er að framkvæmdirnar yrðu bútaðar niður í einingar þannig að ekki þurfi að bjóða þær út á öllu efnahagssvæðinu. Með þessum hætti fengið atvinnulífið þá innspýtingu sem nú bráðvantar og innlendum aðilum tryggð þátttaka í framkvæmdunum. Stjórnvöldum ber að verja störfin með öllum tiltækum ráðum og væri þetta einn liðurinn í þeim aðgerðum.

 

Með þetta að leiðarljósi hefði atvinnulífið alla möguleika á að standa við gerða kjarasamninga í stað þess að velja þann kost að fresta viðræðum eða jafnvel segja samningunum upp. Þessar aðgerðir yrðu einnig til þess fallnar að draga úr atvinnuleysi að nokkru marki og umfram allt yrði komið í veg fyrir ófrið á vinnumarkaði. En sá jarðvegur sem nú er í íslensku þjóðlífi er ekki góður til að sá í enn frekari ófrið sem yrði óumflýjanlegur með frestun eða uppsögn  kjarasamninga. Launþegar í landinu eiga ekki að sætta sig við það að fá ekki inn þær hækkanir sem flestir hafa gert ráð fyrir að kæmu inn þann 1. mars næst komandi.

 

Það eru engar ýkjur að segja að þátttöku ríkisins í þessum viðræðum hafi sárlega vantað, og taka þannig undir með ályktun Kennarasambands Íslands frá 22. janúar sl. Enda hafa bæði samtök launþega og vinnuveitanda reynt að koma auga á stefnu og sýn ríkisstjórnarinnar í þessum viðræðum án árangurs. Þar er einnig hvatt til að samstaða launþega og samtaka þeirra haldi áfram á þessum erfiðu tímum. Öllum ætti að vera ljóst að það er samtakamáttur og ekkert annað sem mun skila launþegum árangri í viðræðum við vinnuveitendur. Baklandið þarf að þjappa sér saman og styðja við forustuna jafnframt því að veita henni nauðsynlegt aðhald með gagnvirkri umræðu um kjaramálin.  

 

Þegar þessar línur ertu settar á blað hangir líf ríkisstjórnarinnar á bláþræði og ekki annað að sjá en kosningar muni fara fram þann 9. maí næst komandi að óbreyttu. Almenningur hefur kallað eftir stefnu og aðgerðum ríkisstjórnarinnar í atvinnu- og efnahagsmálum. Það eitt að hafa örvun atvinnulífsins og hag heimilanna að leiðarljósi gæti skilað ríkisstjórninni nokkuð áleiðis í þessari baráttu.  Þessi örvun myndi einnig skila tekjum í ríkissjóð, en aðgerðarleysi og botnfrosið atvinnulíf gerir það sannarlega ekki.
Deila