Translate to

Pistlar

Verk Vest mótmælir hugmyndum félagsmálaráðherra

Frá baráttudegi verkafólks Frá baráttudegi verkafólks

Verkalýðsfélag Vestfirðinga mun aldrei sætta sig við að áratugalöng  barátta hreyfingarinnar fyrir bótakerfi atvinnulausra verði skert með þeim hætti sem nú hefur verið boðað, verði hugmyndir félagsmálaráðherra að veruleika. Atvinnuleysisbætur eru  hluti af samningsbundnum kjarabótum sem náðust fram í vinnudeilum um miðja síðustu öld. Þær verða ekki gefnar eftir  baráttulaust.  Launamenn sem greitt hefur verið af tryggingargjald eiga fullan bótarétt hjá sjóðnum óháð aldri, kyni eða búsetu og því með öllu óasættanlegt að á þeim verði brotið.


Hugmyndir ráðherra, sem ganga út á að skerða atvinnuleysisbætur um 50% á mánuði, beinast að ungu fólki á aldrinum 18 - 24 ára. Þetta þýðir að einstaklingurinn þarf að framfleyta sér á hálfum bótum eða 75 þúsund krónum á mánuði. Þetta mun einungis auka ennfrekar á vanda sveitarfélaga sem bera samkvæmt lögum framfærsluskyldu gagnvart þegnum sínum. En ekki er hægt að ætlast til að einstaklingurinn geti framfleytt sér af þessum smánarbótum. Þarna er verið að auka enn frekar á vanda þeirra sem þegar er gert að taka á sig auknar byrgðar, bæði með beinum skattahækkunum sem og með auknum jaðarsköttum.


Gera má ráð fyrir að ein afleiðingin verði enn frekari aukning vandamála sem tengjast  félagslegri einangrun þeirra sem missa vinnuna.  En samkvæmt lögum þá á Vinnumálastofnun að bjóða atvinnuleitendum virk vinnumarkaðsúrræði strax í upphafi atvinnuleysis.  Í þeim efnum hefur stofnunin því miður að miklu leiti brugðist.  Hvers á einn þjóðfélagshópur að gjalda sem þegar hefur verið greitt af fullt tryggingargjald og með þeim hætti skapað sér fullan bótarétt?


Fyrirhugaðar hugmyndir félagsmálaráðherra eru með öllu ónothæfar og til þess eins fallnar að höggva skörð í þær varnir sem verkalýðshreyfingin hefur náð fram til handa atvinnulausum og grafa undan núverandi bótakerfi.  Það er með öllu ótækt að auka álögur á þá sem efnaminni eru þegar  samtímis er horft upp á að stóreignafólk sleppi að miklu leyti við álögur í boðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar í skattamálum.  


Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Deila