Translate to

Saga félagsins

Verkalýðsfélag Patreksfjarðar

Patreksfjörður. Patreksfjörður.

Verkalýðsfélag Patreksfjarðar var stofnað 16. október árið 1928. Á stofnfundi skrifuðu sig í félagið 55 verkamenn, 46 karlar og 9 konur, en á fundi daginn eftir bættust 29 félagsmenn við. Árið eftir voru meðlimir orðnir 156. Félagið var stofnað að undirlagi Verklýðssambands Vesturlands, eins og Alþýðusamband Vestfjarða kallaðist í fyrstu. Sambandið sendi Halldór Ólafsson ritstjóra Skutuls á Ísafirði og ritara sambandsins til að aðstoða við stofnfundinn. Verkalýðsfélag Patreksfjarðar gekk í Alþýðusamband Íslands árið 1930.

Fyrsti formaður Verkalýðsfélags Patreksfjarðar var Árni G. Þorsteinsson, síðar póstmeistari. Með honum í stjórn voru kosnir Benedikt Einarsson, Ragnar Kristjánsson, Páll Ó. Guðfinnsson, Kristján Jóhannesson, Hans P. Christiansen, Davíð Friðlaugsson og Guðfinnur Einarsson.

Fyrstu árin var nokkuð um reipdrátt milli verkalýðsfélagsins og helsta atvinnurekandans á Patreksfirði, Ó. Jóhannesson og co. Fyrirtækið stóð að myndarlegri togaraútgerð, fiskvinnslu og verslun um áratugaskeið. Fyrsti kauptaxti verkalýðsfélagsins gerði ráð fyrir að tímakaup karla væri 80 aurar í dagvinnu en kvenna 50 aurar. Um áramótin 1930 kom til verkfalls þegar fyrirtækið lokaði fyrir sölu á kolum til almennings. Verkfallið stóð stutt og var því aflýst eftir að Ólafur Jóhannesson mætti á fund í félaginu og sagði kolasölubann ekki í gildi. Áður hafði hann látið syni sína og aðra utanfélagsmenn ganga í störf verkafólks við útskipun. Verkalýðsfélagið vildi hækka dagvinnu karla í eina krónu, en sæst var á 90 aura. Næstu ár voru erfið í útgerð og salfiskvinnslu og gekk á ýmsu um útborgun launa, auk þess sem vinna var stopul og atvinnuleysi oft viðloðandi í plássinu. Urðu verkamenn þá að gera undantekningu frá ákvæði um vikulega útborgun í peningum. Hinsvegar var staðið á forgangsrétti félagsmana til vinnu eins og hægt var og félagið reyndi að jafna niður vinnu félagsmanna, einkum á veturna. 

Togarinn Ólafur Jóhannesson. Togarinn Ólafur Jóhannesson.

Alvarlegar deilur komu upp í félaginu árið 1931. Blönduðust þar saman bæði pólitísk sjónarmið og kaupgjaldsmál. Í aðdraganda alþingiskosninga kom Árni Ágústsson félagi í Dagsbrún í Reykjavík á fund í Verkalýðsfélagi Patreksfjarðar og óskaði eftir að taka til máls. Árni Gunnar formaður félagsins tók því treglega, og spurði hvaða erindi hann ætti, en nafni hans sagðist vera á vegum Alþýðusambandsstjórnar og fékk þá að ávarpa fundinn. Árni Ágústsson var í framboði fyrir Alþýðuflokkinn í kosningunum í júní. Gengu kærur milli þeirra nafna til sambandsstjórnar ASÍ sem var um leið stjórn Alþýðuflokksins á þessum árum. Svo virðist sem meirihluti virkra félagsmanna hafi verið mótfallinn formanni félagsins þegar þarna var komið sögu. Um haustið þegar deilur komu upp milli verkalýðsfélagsins og atvinnurekenda, sauð upp úr. Árni Gunnar Þorsteinsson formaður sagði sig úr félaginu og hópur manna sem studdi hann tók að sér vinnu við ístöku í andstöðu við meirihluta félagsmanna, sem voru í verkfalli. Skiptust félagsmenn í tvær andstæðar fylkingar og nýr formaður var kjörinn Benedikt Einarsson. Þegar Árni Gunnar vildi snúa aftur í félagið var honum hafnað. Í janúar 1932 kom Hannibal Valdimarsson til Patreksfjarðar í umboði Alþýðusambands Vestfjarða til að reyna að koma á sáttum í félaginu. Eftir nokkur fundahöld var gert samkomulag, bæði við Ó. Jóhannesson og co og eins við hópinn kringum fyrrverandi formann, sem kallaðir voru verkfallsbrjótar í bókum félagsins. Árni G. Þorsteinsson fékk þó ekki inngöngu í félagið á ný. Eftir þetta lægði öldurnar í félaginu, þó áfram væri tekist á við atvinnurekendur.

Aðgerð um borð í togara. Aðgerð um borð í togara.

Sjómannafélag Patreksfjarðar var stofnað árið 1937, og gengu þá margir sjómenn úr Verkalýðsfélaginu, en félagið samþykkti gagnkvæm vinnuréttindi félagsmanna. Sjómannafélagið starfaði til ársins 1944 þegar það gekk sem heild inn í Verkalýðsfélagið og starfaði áfram sem deild í því. Árið áður höfðu verið samþykkt ný lög fyrir félagið og þá var stofnuð kvennadeild innan þess. Deildir verkamanna og verkakvenna störfuðu árin 1943-1953. 

Fyrr var starfandi verkalýðsfélag á Patreksfirði, Verkamannafjel. Patrekshrepps, sem talið er að hafi verið stofnað árið 1914. Lognaðist það útaf eftir fáein misseri.

Verkalýðsfélag Patreksfjarðar beitti sér fyrir stofnun Byggingafélags verkamanna, Kvennadeildar Slysavarnarfélagsins, byggingu hraðfrystihúss og lestrarfélagi svo nokkuð sé nefnt af framfaramálum sem félagið beitti sér fyrir á fyrstu áratugum þess. Þá átti félagið óbeinan þátt í Pöntunarfélagi verkamanna sem síðar varð Kaupfélag Patrekshrepps. Verkalýðsfélagið átti einnig drjúgan þátt í byggingu Félagsheimilisins á Patreksfirði.

Verkalýðsfélag Patreksfjarðar hefur síðan 1944 verið sameiginlegur vettvangur verkafólks og sjómanna á Patreksfirði. Félagið hefur átt samleið með öðrum félögum innan Alþýðusambands Vestfjarða um samningamál síðan 1950. Félagið átti þátt í stofnun Lífeyrissjóðs Vestfirðinga árið 1970 og sama ár var samþykkt að taka upp bónuskerfi í frystihúsi Skjaldar hf. Verkalýðsfélagið veitti félögum sínum stuðning og þjónustu eins og önnur félög gegnum sjúkrasjóð, orlofssjóð og með því að halda úti skrifstofu. Verkalýðsfélag Patreksfjarðar var eitt af stofnfélögum Verkalýðsfélaga Vestfirðinga árið 2002. 

Formenn Verkalýðsfélags Patreksfjarðar hafa verið:

  • Árni G. Þorsteinsson 1928-1931
  • Benedikt Einarsson 1931-1936
  • Davíð Davíðsson 1937-1940
  • Jóhannes L. Jóhannesson 1941
  • Ásmundur Matthíasson 1942
  • Jóhannes Gíslason 1943-1945
  • Þórarinn Bjarnason 1946-1947
  • Agnar Einarsson 1948
  • Ingimundur Halldórsson 1949
  • Ólafur Bæringsson 1950,1966-67,1969-70
  • Gunnlaugur Kristófersson 1951,1953-1960
  • Kristján Eggertsson 1952
  • Bjarni H. Finnbogason 1961-1965
  • Jens Líndal Bjarnason 1965-1966
  • Snorri Gunnlaugsson 1967-1968
  • Gestur Guðjónsson 1968-1969
  • Marteinn Jónsson 1970-1977
  • Hjörleifur Guðmundsson 1977-1993
  • Gunnar P. Héðinsson 1992-1993, 1995-1998
  • Magnús M. Gunnbjörnsson 1993-1995, 1998-2002

Heimildir

  • Skjalasafn Verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum. Deild 41.
  • Jón úr Vör. „Verkalýðsfélag Patreksfjarðar 20 ára." Vinnan. (Útgefandi: Útgáfufélagið Vinnan.) 6. árg. 12. tbl. desember 1948, 274-277 og 280.
  • „Verkalýðsfélag Patreksfjarðar." Vinnan, afmælishefti 1966, bls. 56.