Pistill Gunnhildar B. Elíasdóttur 1. maí 2014
Til hamingju með daginn.
Ég hef alltaf litið á það sem sérstakan heiður að fá að ávarpa baráttufund á 1. Mai og litið svolítið upp til þeirra sem þar hafa stigið á stokk.
Ekki óraði mig fyrir því þegar ég var lítil, að leika mér í skeljabúinu mínu, heima á Arnarnúpi í fallega dalnum mínum Keldudal, aðeins eftir miðja síðustu öld, að ég ætti eftir að standa í pontu og flytja ávarp á baráttudegi verkalýðsins. Þá vissi ég ekki hvað orðið verkalýður eða verkafólk var, heyrði það örugglega aldrei, í mínum heimi þá var bara fjölskyldan, að reyna að hafa í sig og á, og svo voru það öll börnin úr kaupstaðnum sem komu í sveit á sumrin.
Fyrstu kynni mín af verkalýðsfélagi voru þegar ég gekk með mitt fyrsta barn, að reyna að vinna fyrir mér, ekki í sambúð og samfélagskerfið ekki eins og það er í dag, þó mörgum þyki það ekkert of gott í dag, enda komin yfir 40 ár síðan þetta var. En sem sagt, ég skyldi ekkert í því hvers vegna manninum sem stálaði fyrir mig hnífinn í frystihúsinu var allt í einu svo umhugað um að ég gengi í verkalýðsfélagið á staðnum. Ég vissi það ekki þá en frétti miklu seinna að hann var formaður sjúkrasjóðs félagsins, og eftir að hann hafði reglulega í nokkrar vikur tuðað í mér lét ég til leiðast og skráði mig í Brynju verkalýðsfélag. Það var svo þegar ég var búin að eignast mitt barn að ég fór að skilja hvernig í öllu lá, þá kom nefnilega fulltrúi frá félaginu með umsóknareyðublað sem hann bað mig að undirrita og síðan afhenti hann mér peningaupphæð, man nú ekki hversu mikið, en þetta var þá fæðingarstyrkur og ég held að sjaldan hafi peningar komið sér eins vel fyrir mig því ekki var komið neitt sem hét fæðingarorlof og lítið um aðstoð frá öðrum en fjölskyldunni sem auðvitað studdi mig eins og hægt var.
Af hverju er ég svo að rifja þetta upp hér, jú mig langar bara að benda á að það er svo mikilvægt að stéttarfélögin okkar séu sterk og við, öll sem tilheyrum þeim, sýnum þeim áhuga, alltaf.
- 1.Mai í ár er svolítið sérstakur í mínum huga. Af hverju, jú í gær var nefnilega 30. apríl og þá var minn síðasti vinnudagur sem bréfberi á Þingeyri. Það er ekki lengur arðbært hjá fyrirtækinu Íslandspósti, sem ég held að sé í eigu okkar allra Íslendinga, að hafa manneskju í tæplega hálfu starfi, starfi sem skiptir samfélagið sem ég bý í svo miklu máli, að til þess að uppfylla kröfur um arðsemi er starfið lagt niður.
- 31. desember síðastliðinn var líka svolítið sérstakur umfram það að vera gamlársdagur, þá var nefnilega síðasti vinnudagur minn í ræstingum hjá Ísafjarðarbæ. Það var ekki lengur hagkvæmt hjá sveitarfélaginu að hafa manneskju í þessu hlutastarfi, heldur þurfti að leggja það niður í hagræðingarskyni.
Það er nöturlegt og sárt að störfin manns, sem maður er búin að sinna af alúð og samviskusemi í meira en áratug eru bara allt í einu orðin óþörf og þeim bara hent út í tunnu eins og hverju öðru rusli.
28. mars síðastliðinn er þó eftirmynnilegri en flest það sem á undan er talið. Það var yndislegur sólskinsdagur, eiginlega sá fyrsti á árinu, og allt í einu um hádegisbilið varð allt svart.
Það er ótrúlegt að í heiðskýru og fallegu veðri, sólin skín og vor í lofti, þá allt í einu á miðjum degi verður svarta myrkur, já svarta myrkur ekki bara á einum stað heldur mörgum og þó svartast á stöðum eins og Húsavík, Djúpavogi og Þingeyri. Það er nöturlegt og sárt að horfa upp á það að allt í einu eru staðirnir sem okkur þykir svo gott að lifa og starfa á, allt í einu eru þeir ekki nothæfir lengur. Það er nöturlegt og sárt að einn og sami aðilinn hafi fengið fyrirgreiðslu, fengið hlut af skattpeningum okkar allra, fengið húsakost og tæki á niðursettu verði, fengið yfirráð yfir auðlindinni sem við öll eigum, til þess að byggja upp fyrirtæki sem svo allt í einu á að þjappa saman á einn stað, og arðsemiskrafan ein ræður ferðinni, arðsemiskrafa örfárra einstaklinga sem vilja geta borgað sér og sínum sem allra allra mestan arð af öllu saman.
Það er líka nöturlegt og sárt að fyrirtæki detti í hug að bjóðast til þess að aðstoða starfsfólkið og fjölskyldur við brottflutning frá áðurnefndum byggðarlögum, ég var nú vona að þetta boð hafi verið sett fram í augnablikshugsunarleysi, svo vanhugsað sem það er, en aldeilis ekki. Þessir fólksflutningar, eða hreppaflutningar eins og þetta kallast í hreinni íslensku eru þegar hafnir. Það er eins og þessir staðir séu eins og hverjar aðrar vinnubúðir sem settar eru niður þar sem mestur arður fæst og síðan flutt eftir þörfum.
Það er líka nöturlegt og sárt að verkafólkið sem vinnur á þessum stöðum skuli, af einhverjum ástæðum, ekki geta tjáð sig. Kanski vill það ekki, getur ekki eða þorir ekki af einhverjum ástæðum að segja sína skoðun á málinu og það er slæmt. Það er slæmt fyrir alla aðila ef ekki er hægt að skiptast á skoðunum og hugmyndum um hvernig best er að haga málum svo allir uppskeri eins og þeim ber og geti þá kanski búið við meira atvinnuöryggi en nú er, sem reyndar er nánast ekki neitt. Það er nefnilega þannig allstaðar að í þögninni getur óréttlæti þrifist og það er hættulegt öllum.
Við í verkalýðshreifingunni verðum líka að standa okkar vakt og reynum að gera það eftir bestu getu en, ekkert félag getur verið sterkara en einstaklingarnir sem tilheyra því og þar þurfum við öll sem eitt að gera miklu betur, það vantar miklu miklu meiri áhug fyrir því að bæta kjörin, því það er nú einu sinni þannig að til þess að geta gagnrýnt af einhverju viti þarf maður að koma með andsvör.
Það er stundum sagt um okkur hér fyrir vestan að við getum sjálfum okkur kennt um hvernig staðan er vegna þess að við höfum ekki viljað spila með þegar fiskveiðistjórnunarkerfið var sett á. Ég ætla ekki að rifja það upp en óréttlæti verður ekkert betra bara ef fleiri beita því og síðustu uppákomur í atvinnulífi landsbyggðarinnar sýna það. Ég er og verð alltaf stolt af því að vera vestfirðingur sem ekki hefur tekið þátt í þeirri spillingu sem kvótakerfið er og mun áfram reyna að vinna gagn fyrir okkar samfélag.
Vor er í lofti og von í hjarta,
Vermir sólin í dag.
Saman við stefnum á framtíð bjarta
Og semjum um bættan hag.
Það er vor er í lofti, með vonandi nýjum tækifærum svo við skulum vera bjartsýn og njóta dagsins.