Reglur Verk Vest um innheimtu iðgjalda
- gr.
Innheimta iðgjalda
Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980 er atvinnurekanda skylt að halda eftir af launum starfsmanns iðgjaldi hans til viðkomandi stéttarfélags samkvæmt þeim reglum, sem kjarasamningar greina.
Allar skilagreinar sem berast félaginu skuli skráðar inn rafrænt og krafa stofnuð strax í banka á viðkomandi skuldunaut. Starfsfólki er óheimilt að taka á móti millifærslum vegna skilagreina.
Gjalddagi iðgjalda er 10. dagur næst á eftir iðgjaldamánuði og eindagi síðasti dagur þess mánaðar. Eigi greiðsla sér ekki stað innan mánaðar frá lokum iðgjaldatímabils skal innheimta vanskilavexti skv. ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
- gr.
Innheimta vanskila
Verkalýðsfélag Vestfirðinga sendir út innheimtuviðvörun úr innheimtukerfi fyrirtækjabanka til iðgjaldagreiðanda um vanskil þegar 30 dagar eru liðnir frá gjalddaga iðgjalds.
Sé iðgjald enn ekki greitt 30 dögum síðar (60 dögum frá gjalddaga) skal félagið senda bréflega ítrekun um vangreidd iðgjöld til iðgjaldagreiðanda.
Sé iðgjald enn ekki greitt 30 dögum síðar (90 dögum frá gjalddaga) skal félagið senda bréflega viðvörun um innheimtuaðgerðir.) Í bréfinu skal koma fram að verði iðgjaldaskuldin ekki greidd innan 15 daga fari hún í lögfræðiinnheimtu með tilheyrandi viðbótarkostnaði (105 dögum frá gjalddaga).
Innheimtukostnaður skal vera samkvæmt reglugerð nr.133/2010 um hámarksfjárhæðir innheimtukostnaðar.[FS1] [FS2]
Vilji skuldunautur semja um greiðslu skuldar að hluta eða að fullu er slíkt eingöngu heimilt að undangengnum tölvupósti frá skuldunauti þar sem upphæð inná greiðslu skuldar er staðfest. Starfsmaður skal í framhaldi stofna kröfu í banka fyrir sömu upphæð með eindaga 7 dögum síðar. Þegar greiðsla hefur borist skal hún hlutajöfnuð í bókhaldi á móti elstu iðgjaldskuld hjá viðkomandi skuldunauti. Sé krafa ekki greidd á eindaga skal hún strax send til innheimtu hjá lögmannsstofu félagsins með tilheyrandi viðbótarkostnaði (105 daga regla[FP3] ).
- gr.
Innheimta á kröfum byggðum á launagreiðandalista
Mánaðarlega skal taka út launagreiðandalista úr félagakerfi/bókhaldi Verk Vest og kanna hverjir hafa ekki greitt iðgjöld samkvæmt innsendum skilagreinum. Starfsfólk Verkalýðsfélags Vestfirðinga skal senda út innheimtuviðvörun úr innheimtukerfi fyrirtækjabanka til iðgjaldagreiðanda um vanskil þeirra sem hafa ekki greitt iðgjaldakröfur á gjalddaga.
Framkvæmdastjóri/gjaldkeri skal leggja fram vanskilalista iðgjaldagreiðenda á stjórnarfundi í byrjun árs og einnig skal slíkur listi lagður fram í september ár hvert.
- gr.
Verklagsreglur um meðferð afskrifta iðgjalda
Árlega í tengslum við gerð ársreiknings félagsins skal aflað skriflegra upplýsinga frá þeim lögmönnum, sem annast innheimtur fyrir félagið og skal þar koma sérstaklega fram ef þeir telja að einhverjar kröfur séu tapaðar eða í tapshættu.
Afskrifa skal í bókhaldi öll iðgjöld sem félaginu er skylt að taka á sig jafnskjótt og niðurstaða í slíku máli liggur fyrir að mati innheimtuaðila félagsins. Á fylgiskjali með afskrift skal koma fram tilefni afskriftar.
Afskrift iðgjalda er því aðeins heimil að iðgjaldagreiðandi sé gjaldþrota og ekki sé að vænta greiðslu frá Ábyrgðarsjóði launa.
Stjórn er þó heimilt að afskrifa iðgjöld í þeim tilfellum er hún telur iðgjöld ekki innheimtanleg, langt er síðan fyrirtæki hætti starfsemi og ekki hefur tekist að innheimta iðgjöld eða kostnaður af innheimtu vera meiri en iðgjöld þau sem um ræðir.
Miðað er við að endurskoðað uppgjör á bókhaldi félagsins fari fram einu sinni á ári, pr. 31. desember. Samhliða uppgjöri skal framkvæmdastjóri/gjaldkeri leggja fram lista yfir allar afskriftir vegna iðgjalda. Stjórn félagsins skal síðan samhliða uppgjöri staðfesta þessar afskriftir.
Allar afskriftir iðgjalda skulu samþykktar af stjórn félagsins áður en þær eru færðar í bókhald.
- gr.
Breytingar á reglum þessum
Stjórn Verk Vest skal endurskoða reglur um innheimtu iðgjalda er ástæða þykir til. Til breytinga á reglum þessum þarf samþykki einfalds meirihluta á stjórnarfundi.
Reglur þessar voru samþykktar á stjórnarfundi 6. september 2011 og breytt á fundi stjórnar 17. febrúar 2025 og 17. mars 2025.