Translate to

Fréttir

Fjöldauppsagnir á Vestfjörðum

Frá vinnslu í Eyrarodda Frá vinnslu í Eyrarodda
Frá upphafi framkvæmda við jarðgöngin Frá upphafi framkvæmda við jarðgöngin
Fiskvinnslufyrirtækið Eyraroddi og jarðverktakafyrirtækið Ósafl tilkynntu á starfsmannafundum í hádeginu í dag að öllu starfsfólki fyrirtækjanna yrði sagt upp störfum frá og með 1.nóvember næst komandi. Alls eru þetta rúmlega 60 einstaklingar sem munu missa vinnuna með þessum neyðarúrræðum fyrirtækjanna sem hópuppsagnir eru.  Starfsmenn Ósafls hafa haldið í vonina að eftir að framkvæmdum við jarðgöng milli Hnífsdals og Bolungavíkur lauk að þá yrði settur kraftur í framkvæmdir  við snjóflóðagarð í Bolungavík sem  einnig hefur verið unnið af Ósafli.  Hjá Eyrarodda hefur verið róinn lífróður við að halda fyrirtækinu gangandi frá því um síðustu áramót. Hefur verið farið í ýmsar hagræðingaraðgerðir sem hafa bitnað á starfsfólki í formi uppsagna, en frá áramótum hefur starfsfólki í fiskvinnslu fækkað úr 45 í 28, en hjá fyrirtækinu störfuðu rúmlega 40 einstaklingar við veiðar og vinnslu.

Fyrirtækið fékk heimild til greiðslustöðvunar í sumar sem var framlengd í ágúst síðast liðinn, og þá til 21.nóvember næst komandi. Vegna ýmissa utan að komandi aðstæðna og skorts á aflaheimildum þá sjá eigendur Eyrarodda sér ekki fært að halda vinnslu fyrirtækisins áfram að óbreyttu. Með þessu má segja að  fiskvinnsla á Flateyri verði lögð nema til komi aukning veiðiheimilda eða annað sem auðveldar kvótalitlum fiskvinnslum að lifa. Þessar uppsagnir eru gríðarleg blóðtaka fyrir atvinnulíf á Vestfjörðum sem hefur þó haldið sjó þrátt fyrir erfitt efnahagsástand.  Í ljósi þessa er sorglegt að ekkert skuli vera fæðast í atvinnumálum hjá stjórnvöldum, ekki stendur á verkalýðshreyfingunni að koma að því borði með hugmyndir og tillögur eins og sést best á ályktunum frá ársfundi ASÍ.  
Deila