Translate to

Fréttir

Yfirlýsing frá Sjómannasambandi Íslands

Sjómannasamband Íslands sem Verk Vest er aðili að hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Af gefnu tilefni.
Reykjavík 8. júlí 2024
Yfirlýsing Sjómannasambands Íslands vegna frávika frá aðalkjarasamningi.
Sjómenn ganga í störf hafnarverkamanna og taka að sér löndun eftir langa útiveru.
Sjómannasamband Íslands leggur það ekki í vana sinn að hlutast til um kjarasamninga annara „stéttarfélaga“. Nú er hins vegar svo komið að ekki verður orða bundist.
Útgerðarfélagið Brim hf með blessun Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, og Sjómannafélags Íslands, hafa nú gert með sér svo kallaðan „vinnustaðarsamning, um fyrirkomulag vinnu í inniverum“ fyrir skipverja á Þerney Re - sem er frystiskip Brims hf, nýskráð á Íslenska skipaskrá.
Þessi svokallaði samningur var borinn undir atkvæði áhafnarinnar með fulltingi Sjómannafélags Íslands. Áhöfnin samþykkti gerninginn sem er auðvitað með hreinum ólíkindum og vafi leikur á hvers vegna. Brim hf, SFS og Sjómannafélag Íslands, hafa nú staðfest samninginn fyrir sitt leiti. Samningurinn gengur m.a. út á að sjómennirnir landi aflanum sjálfir, fyrir smánarlaun. Áratugum saman hafa Íslenskir togarasjómenn átt frí við löndun.
Með þessu standa Sjómannafélag íslands, Brim hf og SFS að réttindamissi sjómanna og þau færð marga áratugi aftur í tímann.
Frystitogarasjómenn hafa aldrei þurft að landa aflanum sjálfir. Með þessu er brotið blað í réttindamálum íslenskra sjómanna. Áratuga barátta forvera okkar er brotin á bak aftur.
Sjómenn á togurum eiga frí við löndun eins og skýrt er í kjarasamningi og verið hefur í áratugi.
Öryggi sjómanna er stefnt í hættu með því að fara beint í löndun eftir að hafa staðið í þrifum á skipi nánast alla heimferð. Áhöfnin er þreytt og slæpt eftir langan túr og ekki eins vakandi eins og þarf við hættuleg störf. Jafnvel að koma úr 40 daga túr.
Þessi samningur er einnig það sem kallað er „félagslegt undirboð“ sem er þegar menn taka að sér störf fyrir lægra gjald en áður hefur verið samið um – en hvati útgerðarinnar til að gera þennan samning er auðvitað að hann er mun ódýrarari en að greiða hafnarverkamönnum fyrir löndunarþjónustu.
Sjómannasamband Íslands hvetur alla sjómenn og stéttarfélög sjómanna innan SSÍ að vera á verði gegn réttindamissi af þessu tagi. Þetta er hrein og klár misnotkun á ákvæði kjarasamninga um sérsamninga.
Ef viðsemjendur okkar ætla og vilja að réttindi Íslenskra sjómanna verði færð marga áratugi aftur í tímann er einsýnt að kjarasamningum verður sagt upp við fyrsta tækifæri. Ein af kröfum okkar verður þá að öll ákvæði um frávik frá aðalkjarasamningi verði felld þaðan út.
Tekið skal fram að Sjómannafélag Íslands er ekki eitt af 16 aðildarfélögum Sjómannasambands Íslands.
 
Framkvæmdastjórn Sjómannasambands Íslands
Deila