Yfir 100% verðmunur í um helmingi tilvika hjá verslunum á Vestfjörðum
Mikill verðmunur var á hæsta og lægsta verði nær allra vörutegunda en skoðuð var ein lágvöruverðsverslun og 14 aðrar verslanir. Af þeim 81 vörutegundum sem kannaðar voru, var yfir 100% verðmunur á næstum helmingi þeirra, en í þriðjungi tilvika var á milli 50-100% verðmunur á hæsta og lægsta verði.
Af þeim vörum sem skoðaðar voru og voru verðmerktar, var verslunin Hólakaup á Reykhólum með hæsta verðið í 17 tilvikum af 81 og verslunin Albína á Patreksfirði næst oftast með hæsta verðið eða í 15 tilvikum. Bónus á Ísafirði var oftast með lægsta verðið eða á 61 vörutegund af 81 sem skoðaðar voru, Kaupfélag Steingrímsfjarðar á Hólmavík var með lægsta verðið í 8 tilvikum og Samkaup Strax í Bolungarvík í 5 tilvikum. Flestar vörurnar sem skoðaðar voru í könnuninni voru fáanlegar í Bónus og Samkaupum Úrval eða 77 af 81 og næst flestar fengust í Kaupfélagi Steingrímsfjarðar Hólmavík eða 75 og 69 hjá Samkaupum Strax í Bolungarvík.
Ílla verðmerkt í nokkrum verslunum á Vestfjörðum
Áberandi var hve ílla var verðmerkt í sumum verslunum á þessu svæði. Af þeim 57 vörum sem verslunin Tálknakjör á Tálknafirði átti til voru 29 ekki verðmerktar. Í versluninni Vegamótum Bíldudal voru til 30 vörur sem skoðaðar voru í könnuninni en 28 þeirra voru ekki verðmerktar. Hjá Bakkabúðinni Flateyri voru til 34 vörur en 21 þeirra var óverðmerkt. Bjarnabúð í Bolungarvík átti 34 vörutegundir en 14 þeirra voru óverðmerktar. Þetta er mjög slæmt fyrir neytendur sem geta þá ekki gert virkan verðsamanburð milli verslana á þessu svæði.
Minnstur verðmunur á mjólkurvörum
Af þeim 17 mjólkurvörum, osti og viðbiti sem skoðaðar voru, var verðmunurinn undir 50% í 11 tilvikum. Minnstur verðmunur var á fjörmjólk, sem var ódýrust á 136 kr./l. hjá Bónus á Ísafirði en dýrust var hún á 155 kr./l. hjá Hamónu á Þingeyri, verðmunurinn er 19 kr. eða 14%. Mestur verðmunur var á E.F. pítusósu sem var dýrust á 1.529 kr. hjá Albínu á Patreksfirði en ódýrust hjá Bónus á Ísafirði á 850 kr., verðmunurinn er 679 kr. eða 80%.
Mestur verðmunur í könnuninni var á grænmeti, ávöxtum, dósamat og þurrvörum
Áberandi mestur verðmunur í könnuninni var á ávöxtum, grænmeti, dósamat og þurrvörum. Í öllum tilvikum nema þremur var yfir 100% munur á hæsta og lægsta verði. Sem dæmi má nefna að mestur verðmunur var á ódýrustu maísbaununum sem voru ódýrastar á 226 kr./kg. hjá Bónus á Ísafirði og dýrastar á 868 kr./kg. hjá Víkurbúðinni í Súðavík en verðmunurinn er 642 kr./kg. eða 284%. Aðeins minni verðmunur var á Basmati hrísgrjónum en voru þau ódýrust á 298 kr./kg. hjá Bónus á Ísafirði og dýrastur á 1.110 kr./kg. hjá Hamónu á Þingeyri sem er 812 kr. verðmunur eða 272%. Minnsti verðmunurinn af þessum vörum var á sólblómafræjum sem voru ódýrust á 823 kr./kg. hjá Kaupfélagi Steingrímsfjarðar á Hólmavík og dýrust á 1.100 kr./kg. hjá Albínu á Patreksfirði eða 34% verðmunur.
Af öðrum vörum í könnuninni má nefna að mikill verðmunur var á Þrif Leysigeysla sem var dýrastur á 1.250 kr. hjá Albínu á Patreksfirði en ódýrastur á 498 kr. hjá Bónus á Ísafirði, eða 151% verðmunur. N.S. rjómasúkkulaði með hrís var dýrast á 519 kr. hjá Tálknakjör Tálknafirði en ódýrast á 239 kr. hjá Bónus á Ísafirði sem er 117% verðmunur. Frosið lambalæri var ódýrast á 1.278 kr./kg. hjá Samkaupum Strax í Bolungarvík en dýrast á 2.565 kr./kg. hjá Fjölvali á Patreksfirði sem er 101% verðmunur. SS vínarpylsur voru ódýrastar á 1.141 kr./kg. hjá Bónus en dýrastar á 1.464 kr./kg. hjá Víkurbúðinni í Súðavík sem er 28% verðmunur. Kellog´s kornflögur voru ódýrastar á 795 kr./kg. hjá Bónus á Ísafirði og dýrastar á 1.572 kr./kg. hjá Bjarnabúð Bolungarvík sem er 98% verðmunur.
Í könnuninni var skráð niður hilluverð vöru eða það verð sem neytandinn hefur upplýsingar um inni í búðinni að hann eigi að greiða fyrir vöruna. Þegar skýrt er gefið til kynna að veittur sé afsláttur af merktu verði við kassa var skráð afsláttarverð. Til að auðvelda verðsamanburð er skráð mælieiningaverð vöru, þar sem pakkastærðir eru mismunandi eftir verslunum.
Könnunin var gerð á sama tíma í eftirtöldum verslunum: Vegamót Bíldudal, Bakkabúðin Flateyri, Hamraborg Ísafirði, Bjarnabúð Bolungarvík, N1 Ísafirði, Tálknakjör Tálknafirði, Hamónu Þingeyri, Víkurbúðin Súðavík, Fjölvali Patreksfirði, Hólakaup Reykhólum, Albínu Patreksfirði, Samkaupum Strax Bolungarvík, Kaupfélagi Steingrímsfjarðar Hólmavík, Samkaupum Úrval Ísafirði og Bónus Ísafirði. Verslunin Fisherman Suðureyri neitaði þátttöku í könnuninni
Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila. Nánar er hægt að skoða einstakar vörur í þessari könnun hér.