13 félagsmenn á trúnaðarmannanámskeiði
Trúnaðarmenn á vinnustöðum eru sem kunnugt er burðarásar í starfi verkalýðshreyfingarinnar og mikilvægir tengiliðir milli verkalýðsfélagsins og vinnustaðarins.
Til þess að geta sinnt hlutverki sínu þurfa trúnaðarmenn að tileinka sér þekkingu á vinnumarkaðnum, réttindum launafólks, samskiptum og mörgum öðrum þáttum.
Fræðsla trúnaðarmanna er því mikilvægur þáttur í starfsemi stéttarfélaga og Verk-Vest hefur staðið fyrir mörgum trúnaðarmannanámskeiðum undanfarin ár. Segja má að þau séu orðin fastur liður í starfsemi félagsins og þannig á það að vera.
Dagana 9. - 11. mars var haldið trúnaðarmannanámskeið á vegum Verk-Vest, að þessu sinni í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp. Þátttaka var góð, 13 félagar sóttu námskeiðið, víðsvegar af félagssvæðinu.
Þarna var um að ræða Trúnaðarmannanámskeið I, 1. þrep. Efnið var skv. stundaskrá: Þjóðfélagið og vinnumarkaðurinn. Starf trúnaðarmannsins skv. lögum og kjarasamningum. Að rannsaka mál og fylgja þeim eftir. Vinnuaðferðir - verkefni og tengsl. Samskipti á vinnustað.
Leiðbeinandi á námskeiðinu var Sigurlaug Gröndal starfsmaður Félagsmálaskóla alþýðu, sem er trúnaðarmönnum félgasins að góðu kunn frá fyrri námskeiðum.