Translate to

Fréttir

1. maí - alþjóðlegur baráttudagur launafólks

Á alþjóðlegum baráttudegi launafólks minnumst við þess sem launafólk hefur barist fyrir. Minnumst þess að þennan dag sem og alla aðra daga standa verkalýðsfélög um allan heim í stöðugri baráttu fyrir bættum kjörum ALLRA óháð stétt og stöðu. Minnumst þeirra fórna sem þurft hefur að færa til að bæta kjörin og tryggja afkomu. Minnumst þess líka að við megum aldrei sofna á verðinum því þá mun allt sem hefur áunnist verða tekið af okkur. Við megum aldrei gleyma að með samstöðuna að vopni getum við brotið á bak aftur ásókn auðvaldssinna sem nýta hvert tækifæri til að berja niður og brjóta á réttindum launafólks.

Yfirskrift 1. maí árið 2020 ,Byggjum réttlátt þjóðfélag' er tekin úr Nallanum, baráttusöng verkafólks. Því miður er það svo að arði af auðlindum okkar er markvisst skipt á hendur fárra útvaldra. Þessir fáu útvöldu passa upp á að skammta sér og sínum ríflega á meðan verkafólki er ætlað að þiggja restarnar.

Á sama tíma og stjórnmálastéttin skammtar sér afturvirkar launahækkanir og tryggir fjármagns- og fyrirtækjaeigendum ríkisaðstoð situr okkar fólk eftir. Launafólki er ætla að bera byrðarnar aftur og enn. Launafólki, öryrkjum og eldri borgurum er ekki tryggður sambærilegur stuðningur enda ekki á forgangslista auðvaldsstéttarinnar.

Í dag sem alla aðra daga er áríðandi að við stöndum ÖLL saman og byggjum réttlátt þjóðfélag þar sem ÖLLUM eru tryggð réttlát kjör óháð aldri, kyni og þjóðfélagsstöðu.

Til hamingju með baráttudag verkafólks.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Deila