Translate to

Fréttir

1. maí 2021 - "Það er nóg til"

Annað árið í röð og í annað skiptið síðan 1923 getur íslenskt launafólk ekki safnast saman á 1. maí til að leggja áherslu á kröfur sínar. Líkt og í fyrra er brugðist við þessari stöðu með útsendingu frá sérstakri skemmti-og baráttusamkomu sem verður sjónvarpað á RÚV að kvöldi 1. maí (kl. 21:00).

Landsþekktir tónlistarmenn, skemmtiatriði og hugleiðingar launafólks víða af á landinu einkenna þáttinn. Meðal listamanna sem koma fram eru Emilíana Torrini og vinir, Margrét Rán og félagar, Fjallabræður, Skoffín, Moses Hightower, Jakob Birgisson uppistandari og Öreigarnir (blásarasveit Samma og Co).

Það er nóg til er yfirskrift 1. maí að þessu sinni. „Það er nóg til“ er orðatiltæki sem flestir Íslendingar þekkja og nota gjarnan þegar gest ber að garði. Fólki er boðið að njóta veitinga með viðkvæðinu „fáðu þér, það er nóg til“. En undirliggjandi meining er ekki síður „ekki vera feimin við að fá ykkur, við viljum deila með ykkur“.

Afkoma samfélagsins á Íslandi á fyrri hluta 21. aldarinnar er þrátt fyrir allt með því besta sem þekkist í sögunni. Við búum í landi sem er ríkt af auðlindum – bæði af hendi náttúrunnar og mannauði. Með góðum vilja og réttum ákvörðunum getum við öll notið mannsæmandi lífskjara á Íslandi. Það er nóg til!

Þar sem engar verða kröfugöngurnar verður hægt að búa til sitt eigið kröfuspjald á Facebook og sýna stuðning sinn við baráttu verkalýðshreyfingarinnar í verki með því að merkja prófílmyndina sína 1. maí. Við hvetjum til þátttöku í baráttudeginum á Facebook og svo til áhorfs á Rúv um kvöldið.

Að dagskránni í Sjónvarpinu og viðburðum á samfélagsmiðlum standa eftirfarandi heildarsamtök launafólks: ASÍ, BHM, BSRB og KÍ.

Deila