1. maí ávarp forseta ASÍ
Úr ávarpi forseta ASÍ sem birt er í vefriti Vinnunnar.
..." Í okkar ríka samfélagi með gjöfulum fiskimiðum, orkunni sem streymir úr iðrum jarðar og eftirsóknarverðri náttúru á enginn að líða skort. Þær raddir heyrast frá viðsemjendum og jafnvel stjórnvöldum að laun á Íslandi séu of há, útflutningsgreinarnar eigi að ráða hvað sé til skiptanna og meiri aga þurfi á vinnumarkaðinn. Í orðunum liggur skilningsleysi gagnvart stöðu þorra launafólks, að við séum ekki bara almennt sátt við okkar. Gott og vel, förum yfir nokkur þau atriði sem þarf að bæta úr til að sátt megi nást:
Í fyrsta lagi þurfum við öll að njóta auðlindanna okkar, þær eiga ekki að ganga kaupum og sölum eða vera seld á hrakvirði í samningum við orkufrek stórfyrirtæki sem koma sér hjá skattgreiðslum hér á landi. Það verður engin sátt á meðan risarnir í sjávarútveginum hafa 42 milljarða í hagnað en greiða einungis 4,8 milljarða í afnot af auðlindinni.
Það verður heldur engin sátt á meðan þeir ríkustu komast hjá því að greiða í sameiginlega sjóði, hvort sem er með skattaundanskotum, skattaívilnunum eða aflandsfélögum. Það verður ekki til að auka á sáttina að veikja eftirlitsstofnanir og auðvelda þannig svik gagnvart almenningi.
Skattana og auðlindagjöldin á að nota til að styrkja velferðarkerfið og koma því þannig fyrir að fólk þurfi ekki að velta fyrir sér hvort það hafi efni á að viðhalda heilsu sinni. Við getum öll notið menntunar og þess að kerfið grípi í raun og veru þau sem detta út af vinnumarkaði. Örorka eða aldur verði ekki ávísun á fátækt. ..."