1. maí hátíðarhöldin á Ísafirði og Suðureyri
Aðalræðumaður dagsins var Björn Snæbjörnsson formaður Einingar Iðju og Starfsgreinasambands Íslands. Í ræðu sinni gerði Björn að umtalsefni þau réttindi sem áunnist hefði í gegnum tíðina og margir tækju sem sjálfsagðan hlut í dag. Fyrir þessum réttindum hefði verkafólk barist með samstöðuna að vopni og náð fram sigrum. Í því samhengi vísaði Björn einnig til samstöðu okkar landsbyggðarfólks þegar kæmi að málum sem að okkur snéri svo sem samgöngumálum. Þar mættum við ekki lát reka fleig í raðir okkar heldur yrðum við að standa saman að þeim verkefnum sem skipti okkur mestu máli. Þá voru atvinnumálin í brennidepli ásamt þeirri ólgu sem hefði verið innan verkalýðshreifingarinnar síðustu misseri. Ræðu Björns í heild sinni má nálgast hér.
Herdís Hubner grunnskólakennar á Ísafirði flutti hátíðargestum pistilinn þar sem hún benti einnig líkt og Björn á þá nauðsyn að við landsbyggðarfólk yrðum að snúa bökum saman. Grasið væri ekki alltaf grænna hinu megin við lækinn. Þá gerði Herdís að umtalsefni þá staðreynd að okkur Vestfirðingum væri að fækka ískyggilega hratt, og nefndi sem dæmi að á síðustu fjórum árum hefði börnum við Grunnskóla Ísafjarðar fækkað um 100. Vegna þess yrði í fyrsta skipti í langann tíma að segja upp kennurum við skólann. Pistil Herdísar í heild sinni má nálgast hér.
Að loknum hátíðarhöldum var boðið upp á kaffi og kökuhlaðborð í Guðmundarbúð, þar sem slysavarnarkonur sáu um kaffiveitingarnar að vanda.
1. maí hátíðarhöldin á Suðureyri tókust mjög vel eins og jafnan áður. Hátíðarhöldin voru með hefðbundnum hætti og góð þátttaka var í kröfugöngu og boðsundi barna, kaffiveitingar voru í félagsheimilinu þar sem um 130 manns komu í kaffi og hlýddu á ræðu dagsins sem Valdimar Hreiðarsson flutti og var að henni gerður góður rómur. Ræða Valdimars er hér.
Einnig var boðið upp á söng og tónlistaratriði barna og endað var á leikverki úr vestfirskri verkalýðssögu sem Elfar Logi flutti við góðar undirtektir.
Að venju stýrði Lilja Rafney Magnúsdóttir hátíðahöldunum. Hún lætur ekki deigan síga 1. maí þrátt fyrir annasöm störf á Alþingi.