Translate to

Fréttir

ASÍ mótmælir útúrsnúningi Samtaka atvinnulífsins

Alþýðusamband Íslands hefur ítrekað krafist þess að meginefni samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158 um rökstuddar uppsagnir verði innleidd hér á landi.  Það er skoðun ASÍ að það séu fólgin í því grundvallar mannréttindi og almenn kurteisi að launafólk fái að vita hvers vegna því er sagt upp.

 

Undir þetta sjónarmið hafa allmargir tekið, nú síðast aðstoðarframkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins, og er það fagnaðarefni.  Það er hins vegar miður, og í reynd lítt til þess fallið að byggja upp traust milli aðila, þegar gagnaðila eru gerðar upp skoðanir eða staðreyndum hallað. Fullyrt hefur verið að ,, ASÍ fari hins vegar fram á að settar verði reglur sem banni atvinnurekanda að segja upp starfsfólki nema honum sé það sérstaklega heimilt.  .... Krafan er í raun að tekið verði upp sambærilegt ferli á almennum markaði og gildir hjá því opinbera - með áminningum áður en til uppsagnar geti komið‘‘. Þetta er alrangt og úr lausu lofti gripið og í raun algjör útúrsnúningur. ASÍ hefur ekki lagt til neinar breytingar á núverandi löggjöf um hvað teljast vera ólögmætar uppsagnir. ASÍ hefur ekki lagt til neinar breytingar á rétti atvinnurekanda til að segja launafólki upp störfum.  ASÍ hefur heldur ekki lagt til neinar breytingar á samskiptum atvinnurekanda og launafólks í aðdraganda hugsanlegra uppsagna. Að halda öðru fram er ókurteisi.

Hér á landi hefur um lagt árabil gilt sú regla að sönnunarbyrði þess að fyrir liggi gild ástæða uppsagnar hvíli á atvinnurekandanum. Jafnframt hafa í bæði kjarasamningum og lögum verið nefndar ýmsar ástæður sem ekki teljast gildar, en þær eru:

 

a. aðild að stéttarfélagi eða þátttaka í starfsemi stéttarfélags utan vinnutíma, eða í vinnutíma með samþykki atvinnurekanda;

b. að leita eftir því að gegna trúnaðarstarfi sem trúnaðarmaður launafólks eða starfa eða hafa starfað sem slíkur;

c. að hafa borið fram kæru eða tekið þátt í málsókn gegn atvinnurekanda sem felur í sér ásökun um meint brot á kjarasamningum, lögum, reglugerðum eða að hafa leitað aðstoðar hlutaðeigandi stjórnvalds;

d. kynþáttur, hörundslitur, kynferði, kynhneigð, hjúskaparstétt, fjölskylduábyrgð, þungun, trúar- brögð, stjórnmálaskoðun, þjóðernislegur eða félagslegur uppruni;

e. fjarvist frá vinnu í fæðingarorlofi.

 

Samtök atvinnulífsins hafa haldið fram að þessi þáttur ráðningaverndar hafi ekki verið innleiddur nema í mjög fáum ríkjum Evrópu - og þá helst þar sem vinnumarkaður er ósveigjanlegur. Þetta er ekki rétt, og í raun annað tilbrigði við rangfærslur af þeirra hálfu. Allflest ríki Evrópu, að Austurríki og Grikklandi undanskildum, hafa innleitt ákvæði um rökstuddar uppsagnir. Þetta hefur ýmist verið gert með því að innleiða ILO samþykkt nr. 158 að öllu leiti (en þau ríki eru vissulega færri) eða með öðrum hætti, s.s. kjarasamningi líkt og í Danmörku.  Aðalatriðið er, að þessi meginregla gildir, að atvinnurekendur upplýsi viðkomandi starfsmann um ástæður uppsagnar.

Deila