Translate to

Fréttir

Að halla réttu máli

Fiskeldisstarfsfólk á Patreksfirði Fiskeldisstarfsfólk á Patreksfirði

Vilja náttúruverndarsamtök og forystufólk veiðiréttarhafa virkilega fara með umræðuna um stöðu laxeldis á Vestfjörðum niður á það sorglega plan sem lögmaður náttúruverndarsamtaka Íslands og formaður veiðiréttarhafa koma fram með í fjölmiðlum? Vilja umrædd hagsmunasamtök vera þekkt fyrir að tefla fram talsmönnun sem skreyta sig með mannfyrirlitningu og útlendingahatri? Slíkur málflutningur er gjörsneyddur náungakærleik og samfélagslegri ábyrgð!

Áhorfendur Kastljósþáttar RÚV mánudaginn 8. október urðu vitni af því að lögmaður samtaka um náttúruvernd sýndi af sér einstaklega ósmekklega framkomu, litaða af ósannindum gagnvart íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar fullyrti lögmaðurinn að eingöngu væru um örfá störf að ræða, að mestu pólverjar eða aðrir útlendingar sem ættu bara tímabundna búsetu á Vestfjörðum og skiptu því engu máli. Þeir gætu bara fengið sér vinnu annarsstaðar! Skeytingarleysi lögmannsins gagnvart hagsmunum þessara starfsmanna er algjör og dæmir sig sjálf.

Fyrir utan að ummælin væru ósmekkleg og lýstu ákveðnu útlendingahatri og mannfyrirlitningu, þá eru þau einfaldlega ekki rétt.

Flestir þeirra starfsmanna sem eru í störfum fyrir laxeldisfyrirtækin sem svipt voru bæði rekstrar- og starfsleyfi með niðurstöðu úrskurðarnefndar, eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Vestfirðinga. Sem forsvarsmaður stéttarfélags starfsmanna er staðfest að þeir eru ekki með bráðarbirgðarheimili á Vestfjörðum heldur fasta búsetu.

Fjöldatölur starfsmanna við fiskeldi á sunnanverðum Vestfjörðum virðast líka vefjast fyrir talsfólki hagsmunasamtaka þeirra sem berjast fyrir því að uppræta fiskeldi á Vestfjörðum. Ýmist eru nefnd 5-15 störf, jafnvel kannski 25 pólverjar eða aðrir útlendingar, eða því haldið fram að enginn starfi á ákveðnum svæðum eins og á Tálknafirði. Þessi fullyrðing lögmannsins er röng.

Á tímabilinu frá 1. maí – 1. september 2018 voru að jafnaði 115 félagsmenn Verkalýðsfélags Vestfirðinga við störf hjá umræddum fiskeldisfyrirtækjum. Um 90% þeirra, eða 103 starfsmenn, eiga fasta búsetu á Patreksfirði, Tálknafirði og Bíldudal. Þá eru ótaldir þeir starfsmenn sem eru í öðrum stéttarfélögum eða hafa óbeina afkomu af þjónustu við fyrirtækin og telur heildarfjöldi hátt í 300 manns sem að langmestu leiti á fasta búsetu á svæðinu.

Sagt er að fyrir hverja lygi þurfi að segja sannleikan þúsund sinnum. Það er því næsta verkefni Náttúrusamtaka Íslands að koma að borðinu, sýna íbúum og lífsafkomu þeirra viðingu og síðast en ekki síst, segja satt! Meira er ekki farið fram á.

Finnbogi Sveinbjönrsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.

Deila