Translate to

Fréttir

Aðalfundur ályktar um aðför Hæstaréttar að grunnréttindum á vinnumarkaði

Aðalfundur Verkalýðsfélags Vestfirðinga var haldinn þann 28. maí sl. Á fundinum var nokkur umræða um réttindamál á vinnumarkaði og hvernig óvægni og hörku gegn verkafólki væri óspart beitt til að berja niður þátttöku í störfum stéttarfélaga. Mörg dæmi eru um að starfsfólk sem leitar til stéttarfélaga með fyrirspurnir um launa- og réttindamál væri hiklaust rekið úr vinnu fyrir að leita réttar síns. Í kjölfar umræðna hvernig Hæstiréttur Íslands hefði tekið afstöðu með atvinnurekendum við að höggva í réttindi launafólks var eftirfarnadi ályktun samþykkt.

Ályktun um aðför Hæstaréttar að réttindum launafólks

Svo virðist sem Hæstiréttur Íslands ætli að ganga fram fyrir skjöldu og hanna eigin réttarreglur þegar kemur að túlkun ákvæða um lágmarkshvíld og vikulegum frídegi eru í gildi bæði samkvæmt lögum og kjarasamningum á íslenskum vinnumarkaði. Einnig hefur Hæstiréttur lagt fordæmisgefandi línur með nýlegu dómafordæmi er varðar tómlæti starfsmanna sem telja að á sér hafi verið brotið af hálfu atvinnurekanda.

Ljóst er að með nýlegum dómum Hæstaréttar er varðar starfskjör launafólks er allri ábyrgð og skyldum atvinnurekenda gagnvart kjarasamningsbundnum lágmarkskjörum og réttinum varpað yfir á launafólk. Verði ekki snúið af þeirri hættulegu braut sem Hæstiréttur Íslands hefur lagt með dómum sem skerða sjálfsögð mann- og starfsréttindi má vera ljóst að stéttarfélög í landinu verða að snúa bökum saman og knýja fram ómerkingu á gjörðum Hæstaréttar.

Aðalfundur Verkalýðsfélags Vestfirðinga kallar eftir samstilltu átaki aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnar til að koma í veg fyrir að mannréttindi verði brotin á launafólki þessa lands. Hér er um grófa aðför að lágmarksréttindum launafólks sem ber að stöðva strax með öllum tiltækum ráðum.

Aðalfundur Verkalýðsfélags Vestfirðinga haldinn 28. maí 2019

Deila