Aðför að starfsheiðri félaga Verk Vest
Nú nýverið úrskurðaði neytendastofa starfsmenn hafna Ísafjarðarbæjar á Þingeyri, Flateyri og Suðureyri vanhæfa sökum hagsmunatengsla starfsmanna við fyrirtæki í sjávarútvegi á áðurnefndum stöðum. Í 26. gr. laga um starfsskyldur vigtarmanna segir: "Löggiltur vigtarmaður ber ábyrgð á vigtun sem hann vottar.... " þá segir ennfremur ".. löggiltur vigtarmaður skal sjálfur vera viðstaddur vigtun, hann tryggir alla framkvæmd hennar og staðfestir hana með undirritun .... sem hann ber ábyrgð á í samræmi við lög og reglur ..." Með þessum úrskurði er einfaldlega verið að ýja að því að löggiltir vigtarmenn hafnanna fari ekki eftir þeim lögum og reglum sem Alþingi hefur falið þeim að starfa eftir. Formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga undrast grófa aðför að starfsheiðri félaga Verk Vest.
"það er vegið gróflega að starfsheiðri þessa fólks með því að úrskurða það vanhæft sökum hagsmunatengsla. Þarna er í raun verið að brigsla fólki um að ganga erinda þriðja aðila af því að það hafi sjálft persónulegan hag af. Hér er um félaga okkar að ræða sem sumir hverjir hafa gengt trúnaðarstörfum fyrir félagið og eru ekki þekktir af öðru en fagmannlegum vinnubrögðum" segir Finnbogi Sveinbjörnsson formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga.