Translate to

Fréttir

Aðilar ná ekki saman - næsta verkfallslota hefst eftir miðnætti í kvöld.

Ekki náðist sá árangur af fundi SGS og SA í dag að tilefni væri til að fresta boðuðum aðgerðum sem áætlað er að hefjist eftir miðnætti í kvöld. Tilboð SA jafngildir 30 þúsund króna launahækkun á lægstu taxta á næstu þremur árum sem er algjörlega óásættanlegt. Næsti fundur verður hjá sáttasemjara föstudaginn 8. maí.

Á heimasíðu SGS má lesa eftirfarandi umfjöllun um stöðu kjaraviðræðna eftir fund dagsins.

"Vegna fréttar sem birtist í Fréttablaðinu og á visir.is í morgun undir yfirskriftinni „SA segjast vilja rétta hlut tekjulægstu hópa“, telur Starfsgreinasambands Íslands (SGS) mikilvægt að halda til haga staðreyndum.

Fullyrðingar og prósentutölur í bréfi Björgólfs Jóhannssonar, formanns Samtaka atvinnulífsins (SA), sem er umfjöllunarefni fréttarinnar, eru ekki í samræmi við það sem fram hefur komið við samningaborðið. Hann segir tilboð SA hafa falið í sér rúmlega 20% hækkun dagvinnulauna á samningstímanum. Samkvæmt okkar útreikningum jafngildir tilboð SA því að þeir félagsmenn okkar sem eru á lægstu grunnlaununum fái u.þ.b. 30 þúsund kr. hækkun á þremur árum.

Aðrir þættir í þessu tilboði atvinnurekenda snúa fyrst og fremst að breytingum á vinnuskipulagi þar sem okkar fólk lætur frá sér réttindi á móti nýjum samningsákvæðum og fela ekki í sér raunhækkanir á launum nema verkafólk greiði það sjálft. Hvernig formanni SA tekst að láta skitna tíuþúsundkróna hækkun á ári hljóma sem raunhæft útspil eftir allt sem á undan er gengið er alveg furðulegt. Það verður þó að horfa til þess að markmið bréfsins er væntanlega að þétta raðir atvinnurekenda, sem eru margir orðnir órólegir og eru bullandi ósammála nálgun samninganefndar SA. Þetta er þess vegna ætlað til heimabrúks sýnist manni aðallega og herðir okkar fólk ef eitthvað er.

Við fáum nú  nær daglegar fréttir af því góðæri sem fáir útvaldir virðast njóta á Íslandi. Lúxusbílar seljast eins og heitar lummur og árshátíðir eru haldnar á erlendri grund. Útspil atvinnurekenda styrkir verkafólk í þeirri trú að því sé ekki ætluð aukin hlutdeild í afrakstri vinnu sinnar. Það muni ekkert uppskera nema með baráttu. Eina leiðin til að ná fram bættum kjörum sé að mæta því óréttlæti sem ríkir á vinnumarkaði með fullri hörku.

Grunntaxtar dagvinnulauna félagsmanna innan SGS á almenna vinnumarkaðnum í dag eru frá 201.317 krónum en eftir 4 mánaða störf er lágmarkstekjutryggingin 214.000 krónur. Flestir hópar innan raða SGS eru með samningsbundna taxta upp á 207.814 krónur til 222.030 krónur eftir 7 ára starf. Sem dæmi má nefna að hópferðabílstjórar, sem eru í hæsta virka taxta hjá SGS, eru með 238.043 krónur í grunninn eftir 7 ára starf.

Kröfur okkar eru mjög skýrar: Að lægstu taxtar verði komnir upp í 300 þúsund krónur innan þriggja ára, þ.e. að almennt verkafólk hafi möguleika á að framfleyta sér á grunndagvinnulaunum. Því er svo sannarlega ekki þannig farið í dag.

Uppgangsskeiðið sem virðist vera hafið takmarkast því miður við efri lög þjóðfélagsins. Aðrir berjast í bökkum. Eina leiðin fyrir þá sem eru með lágar tekjur, sem eiga ekki síður skilið að njóta góðærisins en aðrir, er að setja niður fótinn. Það er allt útlit fyrir að vinnustöðvanir verði langvarandi þó að samningsvilji okkar sé ríkur. Skilaboð okkar fólks eru: „Borgið okkur mannsæmandi laun ef þið viljið hafa okkur í vinnu.“ SA verða að átta sig á því að við hvikum ekki frá þeirri grunnkröfu."

Deila