Translate to

Fréttir

Ætlum við að sækja fram eða lepja dauðann úr skel?

Vilja félagsmenn í Verk Vest sætta sig við 3 – 4% launahækkanir eins og Samtök atvinnulífsins hafa boðið eða vilja félagsmenn fylkja sér um réttmætar kröfur samninganefndar félagsins um hækkun lægstu launa?

Þessari spurningu hvet ég allt launafólk til að svara og ákveða í framhaldinu hvort sótt verði fram með réttmætar kröfur um réttmætar kjarabætur eða lepja áfram dauðann úr skel. Launahækkun um 3 – 4% eins og Samtök atvinnulífsins hafa boðið gerir 7 – 9.000 króna launahækkun fyrir taxtafólkið okkar. Sú hækkun er ávísun á óbreytta ástand. Á sama tíma myndi 3 – 4% hækkun hjá stjórnendum innan SA gefa þeim frá 45 – 100.000 krónur eða allt að hálfum verkamannalaunum í hækkun á mánuði! Er eitthvað réttlæti í slíku?

Viljum við byggja samfélag sem leggur áherslu á aukna misskiptingu þegnanna þar sem þeir eignameiri verða ríkari og þeir fátækari eiga vart til hnífs og skeiðar?

Hvaða réttlæti er í því að almennt launafólk geti ekki átt líf utan vinnunnar? Kröfur verkafólks um 300.000 króna lágmarkslaun eru ekki ósanngjarnar, þær eru réttmætar. Vilja samtök atvinnurekenda hafna réttmætum kröfum verkafólks um kjarabætur og möguleika til að lifa af 40 stunda vinnuviku? Ef svo er þá lýsir það viðhorf algjöru virðignarleysi gagnvart því fólki sem skapar fyrirtækjunum hin raunverulegu verðmæti.

Í nútímasamfélagi er algjörlega óásættanlegt að neyðast til að vinna óhóflegan vinnudag með yfir- og aukavinnu til að ná endum saman. Almennt launafólk á sér vart líf utan veggja vinnustaðarins á meðan atvinnurekendur viðhalda óbreyttri láglaunastefnu. Börn verkafólks hafa ekki sömu tækifæri og þeirra efnameiri til þátttöku í tómstunda- og íþróttaiðkun af sömu ástæðu.

Skapar láglaunastefna hagsæld ?

Niðurstöður rannsókna benda til þess að hækkun lágmarkslauna hafa lítil sem engin áhrif á atvinnumöguleika þeirra sem eru á eða nærri lágmarkslaunum. Þær niðurstöður eru því þvert á ríkjandi kenningar um aukið atvinnuleysi í kjölfar hækkunar lágmarkslauna!

Helsta ástæða þess að hækkun lágmarkslauna hefur ekki þau áhrif sem almennt er talið er sú að kostnaðarauki fyrirtækja vegna hækkunar lágmarkslauna er hlutfallslega mjög lítill.

Aftur á móti felst mikill kostnaður í að viðhalda láglaunastefnunni. Fylgifyskar eins og aukin starfsmannavelta, kostnaður við þjálfun á nýju starfsfólki og töpuðum vinnustundum vegna aukinna veikinda eru algengir fylgifiskar sem á endanum reynast fyrirtækjum mjög kostnaðarsamur útgjaldaliður.

Hvað með hin Norðurlöndin?

Horfum líka til Norðurlandanna og berum þau saman við íslenskan vinnumarkað. Á meðan munur milli tekjulágra og tekjuhárra á Íslandi er um 30% þá er sá munur um 5% á Norðurlöndunum. Hluta af þessum mun má skýra með minni tekjujöfnunaráhrifum íslenska skattkerfisins, þar sem hátekjur hér á landi eru skattlagðar mun minna en á hinum Norðurlöndunum og því verður hlutfallslega meira eftir í buddu hátekjuhópa hér á landi.

Aukin misskipting er alvarlegt þjóðfélagsmein þar sem þeir ríku verða ríkari á meðan þeir efnaminni eiga að bera birgðarnar og axla ábyrgð. Á þessari meinsemd verður samfélagið að vinna bug með samhentu átaki.

Grundvallaratriði er að fólk lifi af dagvinnulaunum í stað þess að ganga sér til húðar í óhóflegri yfir- og aukavinnu til að framfleyta sér og sínum. Langur vinnudagur og mikið álag dregur úr framleiðni og eykur samfélagslegan kostnað. Það felst engin ósanngirni í því að okkar fólk geti lifað sómasamlegu lífi af 40 stunda vinnuviku.

Ætlum við að leggjast á árar með atvinnurekendum og viðhalda óréttmætri skiptingu verðmæta sem allt samfélagið skapar? Þessu verður hver að svara fyrir sig.

Mitt svar er skýrt: Sendum láglaunagrýlu forsvarmanna atvinnurekenda heim og stöndum öll vörð um réttmætar launaröfur verkafólks og byggjum þannig réttlátt samfélag fyrir alla.

Finnbogi Sveinbjörnsson, formaður Verkalýðsfélags Vestfirðinga

Deila