Önundur Jónsson dregur úr vikum sem fóru í pott
Umsóknir um sumarhús hjá Verk Vest eru töluvert fleiri fyrir orlofssumarið 2009 en hefur verið undanfarin ár, til samanburðar voru 134 umsóknir í ár á móti 119 umsóknum síðasta sumar, sem var þó mjög gott. Þrátt fyrir fjölgun umsókna virðast þær dreifast nokkuð vel og þurftir eingöngu að draga um nokkrar tímabil í júlí í Svignaskarði og Ölfusborgum. Aldrei slíku vant þurfti ekki að draga um verslunarmannahelgina sem hefur hingað til verið mjög umsetin af félagsmönnum. Útdrátturinn fór fram á skrifstofu félagsins nú í morgun, en til að tryggja að allt færi sem réttast fram sá Önundur Jónsson yfirlögregluþjónn um útdráttinn. Þeir sem hafa fengið úthlutað eru minntir á að ganga frá greiðslu á bústöðum fyrir 20. maí næst komandi eða hafa samband um greiðslufyrirkomulag fyrir þann tíma. Verði það ekki gert verður öðrum félagsmönnum úthlutað viðkomandi tímabil. Þá er einnig rétt að minna á ýmis önnur gistiúrræði eins og gistimiða hjá Hótel Eddu og hjá Fosshótelum sem er hægt að kaupa hjá félaginu. Félagið hefur líka gert samning við Bílaleigu Akureyrar og Bílaleigu Hertz um afsláttarkjör fyrir félagsmenn á bílaleigubílum.