Áfram Vestur - "Góðar samgöngur eru lífæð hverrar byggðar"
"Verkalýðsfélag Vestfirðinga leggur sérstaka áherslu á að tengja norður- og suðursvæði Vestfjarða í einni framkvæmd með jarðgöngum og vegabótum. Þá er ítrekað að útboð geti farið fram sem fyrst þannig að framkvæmdarinnar í heild sinni geti hafist eins fljótt og auðið er.
Skorað er á samgönguráðherra að tryggja að ráðist verði í gerð jarðganga milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar í beinu framhaldi á verklokum við Óshlíðargöng sem og heilsárs vegbótum við alla þéttbýlisstaði á sunnanverðum Vestfjörðum.
Rétt er að benda á að svo til engir flutningar geta átt sér stað milli svæðanna nema yfir sumarmánuðina. Það kemur t.d. í veg fyrir að hægt sé að miðla afla til vinnslu milli staða á sunnanverðum Vestfjörðum annars vegar og staða á norðanverðum Vestfjörðum hins vegar. Slík aflamiðlun mundi án efa geta styrkt atvinnulíf í landshlutanum og auðveldað enn frekari samvinnu fyrirtækja, í sjávarútvegi og öðrum greinum. Þetta mun einnig skjóta styrkari stoðum undir Vestfirði sem eitt atvinnu og þjónustusvæði.
Eitt brýnasta verkefnið hvað varðar samgöngumál í fjórðungnum er að tengja byggðir hans með góðum vegum sem nýtast allt árið. Samkeppnisstaða svæðisins verður stórlega skekkt gagnvart öðrum landshlutum ef ekki kemur til tafalausra aðgerða í heilsárs vegtengingu norður og suðursvæðis Vestfjarða.
Á meðan ástand vegamála á svæðinu er svo dapurlegt sem raun ber vitni, er einfaldlega ekki hægt að bjóða íbúum og atvinnulífi á suðurfjörðum Vestfjarða upp á að standa í eðlilegri samkeppni við aðra landshluta vegna vanþróaðara samgangna. Í þeim efnum eru vestfirskir vegir mörgum áratugum á eftir í uppbyggingu og þróun. Verkalýðsfélag Vestfirðinga ítrekar að bættar samgöngur eru ein af undirstöðunum þess að tryggja og viðhalda byggð í landinu.
Skerðing af því tagi sem við íbúar fjórðungsins þurfum að þola í samgöngumálum leiðir ekki eingöngu til ótryggara atvinnuástands, heldur hefur einnig bein áhrif á íbúaþróun með neikvæðum hætti.
Vestfirðingar hafa barist fyrir því að farartálmar á heiðum og hálsum, sem gjarnan eru tepptir stóran hluta árs, verði færðir niður á láglendi, yfir firði, gegnum fjöll eða hálsa sé því að skipta. Úrbætur á vegum sem liggja inna fjórðungsins hafa setið á hakanum í áratugi og þeir eru í dag með þeim allra lélegustu sem finnast í þróuðum löndum og er þá langt til jafnað.
Krafa Vestfirðinga er skýr „Góðar samgöngur eru lífæð hverrar byggðar, bæði hvað varðar atvinnu og menningu, sem og öryggi og þróun byggðar. Vegir á Vestfjörðum standast ekki þær kröfur sem gerðar eru til nútíma þjóðvega og uppfylltar hafa verið hjá öðrum. Vestfirðingar sem og aðrir landsmenn eiga heimtingu á að þeir geti ekið á vegum sem að jafnaði er boðið upp á í þróuðum löndum."
Höldum ótrauð áfram Vestur veginn íbúum fjórðungsins til hagsbóta og heilla.