Translate to

Fréttir

Aftur í nám - opinn kynningarfundur

Fréttatilkynning frá Fræðslumiðstöð Vestfjarða.

Laugardaginn 28. febrúar n.k. kl. 13:30 stendur Fræðslumiðstöð Vestfjarða fyrir opnum fundi þar sem Jón Einar Haraldsson (Lambi) mun kynna á námskrána Aftur í nám. Um er að ræða 95 kennslustunda nám ætlað þeim sem komnir eru af unglingsaldri og glíma við lestrar- og skriftarörðugleika. Tilgangur námsins er að þjálfa fólk í lestri og skrift með aðferðum Ron Davis og efla sjálfstraust þeirra. Auk Ron Davis þjálfunar er farið í sjálfstyrkingu, íslensku og tölvu- og upplýsingatækni. Bæði er um að ræða einstaklings- og hópkennslu. Námið má meta til allt að 7 eininga í framhaldsskólum.

Þetta námstilboð hefur verið á gangi víða um land undanfarin 3 - 4 ár og gefið einstaklega góða raun að því leyti að stærstur hluti þeirra sem tekið hafa þátt í því hefur haldið áfram námi, ýmist í símenntunarmiðstöðvunum eða í framhaldsskólum.

Ástæðurnar fyrir því hve fólki hefur gengið vel eftir Aftur í nám eru ef til vill margar en fyrst og fremst skipti það sennilega máli að aðstæðurnar sem boðið er upp á í náminu minna lítið á hefðbundinn skóla. Þá er hluti námsins unninn maður á mann, þannig að leiðbeinandinn og nemandinn eru einir saman og ná oft á tíðum trúnaðarsambandi og nemandanum gefst tækifæri til að ná stjórn á þeim þáttum sem valda námserfiðleikunum.

Leiðbeinendur í Aftur í nám verða þeir Jón Einar Haraldsson (Lambi) og Sturla Kristjánsson.

Deila