Áherslur ASÍ: Sáttmáli um efnahagslegt jafnvægi og félagslegt réttlæti
Alþýðusamband Íslands kynnti ríkistjórninni sameiginlegar áherslur landssambanda í gær. Í þeim er lögð höfuðáhersla á að leiðrétta kjör þeirra sem setið hafa eftir í þensluástandi og launaskriði undangenginna ára.
Eftirfarandi er tekið úr frétt á vef ASÍ:
Mikill samhljómur hefur verið í áherslum aðildarsamtakanna, þar sem höfuðáhersla er lögð á að treysta öryggisnet umsaminna lágmarkslauna með umtalsverðri hækkun taxtalauna og finna leiðir til þess að koma til móts við þá sem setið hafa eftir í góðæri undanfarinna missera.
Ójafnvægi og óstöðugleiki í efnahags- og atvinnumálum ásamt vaxandi óróleika á alþjóða fjármálamörkuðum leiðir til þess að mikil óvissa er um þróun mála á næstu misserum. Það, ásamt aukinni misskiptingu í tekjuþróun undanfarinna missera, leiðir til þess að vandasamt er að finna ásættanlegar lausnir í kjaramálum.
Alþýðusamband Íslands telur mikilvægt að við þessar aðstæður verði gerður sáttmáli milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda um samræmda stefnu í kjara-, efnahags-, atvinnu- og félagsmálum. Slíkur sáttmáli þarf að grundvallast á festu, ábyrgð og jafnvægi í efnahags- og atvinnumálum og félagslegu réttlæti. Með því að tengja saman gerð kjarasamninga til næstu tveggja ára við ábyrga og samþætta hagstjórn stjórnvalda og Seðlabanka má draga verulega úr þessari óvissu. Jafnframt getur slík samstillt stefna auðveldað okkur að takast á við þær ógnir sem fylgja umróti á alþjóða fjármálamörkuðum.
Alþýðusambandið leggur því áherslu á að stjórnvöld beiti sér fyrir eftirfarandi aðgerðum. Í fyrsta lagi að dregið verði úr skattbyrði þeirra tekjulægstu, staða barnafjölskyldna verði treyst og komið til móts við aukna greiðslubyrði húsnæðislána. Í öðru lagi verði blásið til sóknar í menntaúrræðum þeirra sem minnsta menntun hafa á vinnumarkaði. Í þriðja lagi verði lágmarks bótafjárhæðir velferðarkerfisins miðaðar við 150.000 kr. og staða fólks á vinnumarkaði treyst.
Áherslur ASÍ gagnvart stjórnvöldum má lesa hér.
Dæmi um áhrif skattatillagna ASÍ má skoða hér.