Translate to

Fréttir

Ákvörðun um breytingu á réttindum tekin á aðalfundi sjóðsins 21. maí

Tryggingafræðileg úttekt Lífeyrissjóðs Vestfirðinga  miðað við síðustu áramót liggur nú fyrir, en samkvæmt þeirri úttekt þá þá er staða sjóðsins neikvæð um 16%. Rétt er að geta þess að vegna góðrar ávöxtunar undanarin ár þá hafa lífeyrisréttindi sjóðfélaga hækkað umtalsvert umfram verðbólgu, en frá árinu 2002 hefur hækkunin numið 22,4% umfram hækkun vísitölu neysluverðs.
  

Lífeyrissjóðirnir á Íslandi hafa að undanförnu legið undir ámæli fyrir áhættusæknar fjárfestingar og ofurlaun framkvæmdarstjóra. Í þeim efnum eru allir sjóðirnir settir undir sama hatt og skiptir þá litlu máli hvort varlega hafi verið farið í fjárfestingum eða launagreiðslum stillt í hóf. Þannig hefur málum einmitt verið háttað hjá Lífeyrissjóði Vestfirðinga, hófstilltar launagreiðslur og dreifð áhættufjárfesting. 

Í kjölfar tryggingafræðilegrar úttektar á sjóðnum var send eftirfarandi fréttatilkynning:
"Hlutverk lífeyrissjóða  er að ávaxta  iðgjöld sjóðfélaga  og mótframlag atvinnurekenda, þannig að sjóðurinn  geti á hverjum tíma staðið við greiðslu lífeyris.

Tryggingafræðileg úttekt Lífeyrissjóðs Vestfirðinga  miðað við síðustu áramót liggur nú fyrir.  Eins og hjá flestum öðrum lífeyrissjóðum hefur orðið töluverð lækkun á eignum sjóðsins. Þær efnahagslegu hamfarir, sem gengið hafa yfir þjóðfélagið og raunar  um heim allan hafa að sjálfsögðu mikil áhrif á stofnanir eins og lífeyrissjóði.

Undanfarin ár hafa verið lífeyrissjóðunum mjög hagfelld og lífeyrisréttindi  sjóðfélaga verið hækkuð verulega umfram verðbólgu  um margra ára skeið. Lífeyrissréttindi  sjóðfélaga í Lífeyrissjóði Vestfirðinga hafa verið hækkað um 22,4% frá  árinu  2002 umfram hækkun vísitölu neysluverðs. Rétt er að halda því  til haga að lífeyrir fylgir ávallt hækkunum á vísitölu neysluverðs  og hefur því  hækkað um 18,8 % frá 1. Janúar 2008, sem er mun meira en laun á almennum vinnumarkaði .

 Að öllum líkindum er óhjákvæmilegt að skerða lífeyrisréttindi  nú, en  ekki liggur fyrir   hversu  mikil sú skerðing verður. Væntanlega munu  lífeyrisgreiðslur  ekki  lækka niður í það sem þær voru  í ársbyrjun 2008.


Verkefni  stjórnar Lífeyrissjóðs Vestfirðinga  er að ávaxta fé sjóðsins sem best og öruggast. Rétt er að benda á að sjóðurinn hefur dreift áhættu sinni mjög mikið undanfarin ár, en ýmsir fjárfestingarkostir sem þóttu áhættulitlir  urðu fyrir skakkaföllum í bankahruninu, en ekki má gleyma þeim hagnaði sem sjóðfélagar hafa þegar haft vegna góðrar ávöxtunar undanfarinna ára.


Sömuleiðis er hlutverk stjórnar sjóðsins að gæta aðhalds í öllum kostnaði við rekstur  hans. Í þeim efnum er mikil aðgæsla höfð, sem kemur fram í ársreikningum undanfarinna ára á heimasíðu sjóðsins. Framtíðin gefur  vonandi tækifæri til að finna ávöxtunarleiðir í breyttu efnahagsumhverfi, sem gerir sjóðnum mögulegt að  hækka lífeyrisréttindi á ný.

Endanleg ákvörðum um breytingu á  réttindum  verður tekin á ársfundi sjóðsins 21. maí n.k., sem er öllum opin  og verður haldinn á Hótel Ísafirði.

Allar frekari upplýsingar veita:  Guðrún Guðmannsdóttir framkvæmdastjóri sjóðsins  og Pétur Sigurðsson formaður stjórnar sjóðsins.
Deila