Allt að 81% verðmunur á umfelgun
Verðlagseftirlit ASÍ gerði verðkönnun á skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu hjá 29 hjólbarðaverkstæðum víðsvegar um landið sl. miðvikudag. Mestur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti á jeppa (t.d. Mitshubishi) með 18´´ álfelgum (265/60R18) sem var ódýrust á 7.157 kr. hjá Bifreiðaverkstæði S.B á Ísafirði en dýrust á 12.980 kr. hjá N1, verðmunurinn var 5.823 kr. eða 81%. Fyrir stálfelgu af sömu stærð er þjónustan ódýrust hjá Bifreiðaverkstæði S.B. á Ísafirði á 7.157 kr., en dýrust á 11.800 kr. hjá Kaldasel verðmunurinn var 4.643 kr. eða 65%.
Minnstur verðmunur í könnuninni var á þjónustu við dekkjaskipti undir smábíl, minni meðalbíl og meðalbíl á 14, 15 og 16´´ stálfelgu (175/65R14, 195/65R15 og 205/55R16), sem var ódýrust á 4.990 kr. hjá Dekkjahúsinu Kópavogi, en dýrust á 6.950 kr. hjá Kletti, verðmunurinn var 1.960 kr. eða 39%. Fyrir 14 og 15´´álfelgu er þjónustan ódýrust á 4.990 kr. hjá Dekkjahúsinu en dýrust á 7.590 kr. hjá N1, verðmunurinn var 2.600 kr. eða 52%. Fyrir 16´´ álfelgu er þjónustan ódýrust á 4.990 kr. hjá Dekkjahúsinu en dýrust á 7.980 kr. hjá N1, verðmunurinn var 2.990 kr. eða 60%.
Nánari upplýsingar um könnunina eru á heimasíðu ASÍ.