Translate to

Fréttir

Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC) blæs til átaks gegn kynbundnu ofbeldi

Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) telur að 35% kvenna yfir 15 ára aldri, alls 818 milljónir kvenna í heiminum öllum, hafi upplifað kynferðislegt ofbeldi, heimilisofbeldi eða ofbeldi á vinnustað. Við slíkt verður ekki unað og því hefur Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (ITUC) blásið til 23 daga átaks til að vekja athygli á málinu. 

Kynbundið ofbeldi er enn í dag eitt algengasta form mannréttindabrota sem látið er viðgangast. Það þarf að breytast og vitundarvakning um stöðu mála er fyrsta skrefið. Í júní næst komandi verður haldið þing Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO) þar sem baráttan gegn kynbundnu ofbeldi verður sett á oddinn. 

Það verða engin sómasamleg störf til þar sem ofbeldi þrífst á vinnustað. Þrátt fyrir það eru ekki til lög á alþjóðlegum grunni sem uppræta ofbeldi og áreitni að neinu marki.

Markmiðið með herferð ITUC er að:

  • Byggja upp móralskan stuðning fyrir þing Alþjóða vinnumálastofnunarinnar (ILO) þar sem ofbeldi á vinnustað verður til umfjöllunar með áherslu á kynbundið ofbeldi.
  • Styðja stéttarfélög í því að útrýma kynbundnu ofbeldi af vinnustöðum í þeirra nærumhverfi. 

Herferðin hefst í dag, 14. febrúar með svokölluðum V-degi sem snýst um baráttuna gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum, og því líkur þann 8. mars á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Nánar hér.

Deila