Translate to

Fréttir

Alþjólegt átak um aðbúnað hótelþerna

Dagana 3. til 10. desember næstkomandi vekja stéttarfélög víða um heim athygli á vinnuaðbúnaði hótelþerna og beina kastljósinu að þessum erfiðu störfum sem unnin eru daglega á milljónum hótela um allan heim. Markmiðið með þessar alþjóðaherferð er að opna augu hótelgesta fyrir þessum störfum en um leið þrýsta á atvinnurekendur að bæta starfsaðbúnað og starfskjör þeirra sem sinna hótelþrifum. Í tilefni átaksins hafa þær Drífa Snædal framkvæmdastjóri SGS og Harpa Ólafsdóttir, forstöðumaður kjaramálasviðs Eflingar skrifað athyglisverða grein á vef SGS. Greinina í heild sinni má lesa á SGS.IS en hér er birtur stuttur úrdráttur úr geininni.

Reglulega berast fréttir af opnun nýrra hótela víðsvegar um Ísland enda hefur fjöldi ferðamanna meira en tvöfaldast á síðustu árum. Það er ljóst að þessir ferðamenn þurfa að gista einhvers staðar og því kemur ekki á óvart að hótelherbergjum fjölgi. Á hinn bóginn taka fáir eftir þeim fjölmörgu starfsmönnum sem sinna hótelþrifum, en daglega þrífa hótelþernur þúsundir hótelherbergja á Íslandi. Líkt og annars staðar í heiminum eru það fyrst og fremst konur með erlendan bakgrunn sem sinna þessum störfum. Hótelþrif er líkamlega erfitt starf sem oft er unnið undir mikilli tímapressu. Þeir sem unnið hafa við hótelþrif vita að fæstir endast lengi í slíku starfi þar sem álagið er gríðarlega mikið og það er vel þekkt að starfsfólk þjáist oft af álagstengdum verkjum og stressi.

Einföld ráð til að bæta aðbúnað

Það er mikilvægt að muna að atvinnurekendur bera ábyrgð á starfsöryggi og aðbúnaði starfsfólks síns. Eigendur hótela geta á einfaldan máta bætt það vinnuumhverfi sem hótelþernur búa við á fjölmörgum hótelum í dag og þannig minnkað líkur á vinnuslysum og veikindum:

  • Starfsfólk við hótelþrif fái viðeignadi starfsþjálfun og menntun.
  • Starfsfólk fái tækjabúnað, vinnufatnaði og hreinlætisvörur sem standist allar öryggiskröfur.
  • Starfsfólk fái öryggisbúnað til að verjast áreiti og ofbeldi.
  • Starfsfólk vinni í teymum til að dreifa álaginu og auka öryggi sitt.
  • Settar séu raunhæfar kröfur á starfsfólk varðandi þann fjölda herberja sem ætlast er til að þrifin séu á hverjum degi.
  • Huga að því við hönnun hótelherbergja að auðvelt sé að þrífa þau.

Rétt er að minna alla þá sem nýta sér hótel hér á landi eða annars staðar að hótelþernur og annað hótelstarfsfólk vinnur mikilvæg og oft á tíðum vanþakklát störf. Þau eru flest á lágum launum, starfa við erfiðan aðbúnað, undir miklu álagi, en þrátt fyrir það reyna þau á hverjum degi að gera vist gesta eins ánægjulega og hægt er.

Deila