Translate to

Fréttir

Ályktanir samþykktar á 8. ársfundi ASÍ

Ársfundur ASÍ, sem lauk á föstudag, samþykkti ályktun um aðgerðir til að endurheimta fjármálastöðugleika og auka trúverðugleika, ályktun um jöfnun og samræmingu lífeyrisréttinda og ályktun um kjaramál. Einnig var á ársfundinum samþykkt stefna ASÍ í málefnum ungs fólks. Allar þessar ályktanir voru samþykktar annaðhvort samhljóða eða með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.


Mesta athygli hefur vakið að í ályktun um að endurheimta fjármálastöðugleika og auka trúverðugleika var lýst þeirri afdráttarlausu skoðun ASÍ að stefna bæri að inngöngu í ESB og stjórnvöld eru hvött til að fara í aðildarviðræður vegna hugsanlegrar inngöngu landsins í sambandið. Það vakti jafnframt athygli að af um 280 ársfundarfulltrúum sem greiddu atkvæði um ályktunina voru aðeins sex á móti.

Í ályktuninni segir m.a:

"Það er skoðun ASÍ að yfirlýsing um að sótt verði um aðild Íslands að ESB og upptöku evru sé eina færa leiðin. Þannig verði látið á það reyna í aðildarviðræðum hvaða samningur Íslandi standi til boða og hann lagður fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu. ASÍ telur að yfirlýsing um að stefnt verði að aðild að evrópska myntsamstarfinu (ERM II) á næstu 2 árum myndi leggja mikilvægan grunn að því að hægt yrði í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að skapa nauðsynlegan trúverðugleika fyrir meiri festu í skráningu krónunnar á næstu árum þangað til full aðild að Evrópska peningamálasamstarfinu (EMU) og upptaka evrunnar næðist."


Hægt er að nálgast þessar ályktanir á vef ASÍ.

Deila