Translate to

Fréttir

Ályktun aðalfundar Sjómannadeildar Verk Vest um kjaramál sjómanna: Staðan meiriháttar hneyksli segja sjómenn

Sjómenn í Verk Vest héldu aðalfund Sjómannadeildar í gær og ræddu stöðu í kjaramálum sjómanna. Niðurstaða fundarins var að vestfirskir sjómenn vilja láta rödd sína heyrast og var eftirfarandi ályktun samþykkt á fundinum:

Nú hafa sjómenn verið samningslausir á fimmta ár, en nýjasti samningur þeirra gilti til 1. desember 2019. Þar af leiðir hefur tímakaup sjómanna og kauptrygging dregist langt úr hófi aftur úr launum á vinnumarkaði. Fundurinn krefst þess að kauptrygging og tímakaup verði lagfært strax.

Allar aðrar starfsstéttir fá greidda tilgreinda séreign í lífeyrissjóð 3,5%, en ekki sjómenn! Fundurinn krefst þess að sjómenn njóti sömu lífeyrisréttinda og aðrir landsmenn.

Olíuverðsviðmiði sem hefur afgerandi áhrif á laun sjómanna hefur ekki verið viðhaldið gegnum árin og er því ekki að skila réttum launum til sjómanna. Fundurinn krefst þess að olíuverðsviðmið verði lagfært svo það virki með sama hætti og þegar það var sett á 1986.

Fundurinn hafnar því alfarið að borga fyrir tilgreindu séreignina með þeim hætti að festa skiptaprósentu í 69,2% og leggja niður olíuverðsviðmiðið. Ekki komi til greina að olíuverðsviðmið sem á að hreyfa skiptaprósentu frá 70% til 80% verði fest fyrir neðan lægsta lágmark í dag.

Fundurinn hafnar alfarið að sjómenn vinni frítt! Þess vegna krefst fundurinn þess að samið verði um kaupgreiðslur til handa matsveini þegar farþegar eru um borð í skipum, enda hefur verið staðfest með dómi að starfssvið matsveina einskorðist við að matreiða fyrir áhöfn.

Fundurinn minnir á að sjómannaafsláttur var tekinn af sjómönnum í kjölfar hrunsins. Sjómenn krefjast þess að sjómannaafsláttur verði endurvakinn, enda njóta sjómenn ekki sömu grunnþjónustu og aðrir landsmenn vegna mikillar fjarveru frá heimili.

Deila