Translate to

Fréttir

Ályktun miðstjórnar um atvinnu- og efnahagsmál

Miðstjórn ASÍ lýsir áhyggjum af þeirri miklu óvissu sem ríkir um framvindu íslensks efnahags- og atvinnulífs. Dráttur á lausn ICESAVE málsins hefur sett efnahagsáætlun Íslands og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins sem og afgreiðslu lána frá vinaþjóðum í uppnám. Afleiðingarnar eru að erfitt ef ekki ómögulegt er að fjármagna þær stórframkvæmdir sem hefjast áttu á þessu ári.


Þá gagnrýnir miðstjórn ASÍ seinagang stjórnvalda við að taka nauðsynlegar ákvarðanir sem snúa að atvinnuuppbyggingu og endurreisn efnahagslífsins. Miðstjórn átelur einnig stjórnvöld fyrir að leggja stein í götu einstakra verkefna. Afleiðingarnar eru tafir við undirbúning nauðsynlegra framkvæmda þannig að þær verða ekki tilbúnar þegar fjármögnun fæst.

Aukin óvissa og úrræðaleysi eykur á vanda okkar og því stefnir í mun meiri samdrátt í efnahagslífinu en hingað til hefur verið spáð og auknu atvinnuleysi. Í nýrri spá Hagdeildar ASÍ um þróun efnahagsmála kemur fram að landsframleiðsla muni dragast saman um ríflega 5% í ár og að atvinnuleysið verði að meðaltali yfir 10%. Þetta þýðir að óbreyttu að þjóðfélagið verður af tugum milljarða í verðmætum og á annað þúsund manns verða án vinnu sem ella hefðu fengið vinnu. Aukinn samdráttur mun einnig leiða til aukins halla á ríkissjóði sem aftur leiðir til meiri niðurskurðar og/eða skattahækkana. Þessi staða er með öllu óásættanleg og við þessu verða stjórnvöld að bregðast nú þegar við með markvissum aðgerðum.

Krafa miðstjórnar ASÍ er að uppbygging og baráttan gegn atvinnuleysi hafi allan forgang.
Deila