Translate to

Fréttir

Ályktun trúnaðarráðs Verk Vest um óvægna umræðu

Trúnaðarráð Verkalýðsfélags Vestfirðinga harmar að starfsfólk stéttarfélaga innan ASÍ hafi á undanförnum vikum orðið að skotspón í óvæginni umræðu bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Starfsfólk félaganna sem hefur haft kjark og þor til að  svara fyrir sig og/eða félaga sína hefur orðið fyrir ótrúlegu aðkasti og það jafnvel frá forystufólki innan verkalýðshreyfingarinnar. Ummæli og skeytasendingar gagnvart starfsfólki hafa verið mjög óvægin og hefur verulega skort á málefnalega umfjöllun þar sem farið er beint í einstaklinginn en ekki málefnið. Því miður hefur slík orðræða haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir starfsfólk stéttarfélaganna og skaðað trúverðugleika verkalýðshreyfingarinnar í heild sinni.

Í þessari umræðu er ítrekað gert lítið úr starfsfólki hreyfingarinnar og því haldið fram að fólkið okkar valdi ekki vinnunni, sinni ekki félagsfólki en skari eld að eigin köku. Velferð starfsfólks hefur þannig verið fórnað í átökum þeirra sem kynda ófriðarbálið. Það er gert af sama fólki og ætti að bera velferð starfsfólks fyrir brjósti, hvort sem þar fer samstarfsfólk, félagsmenn eða samherjar í stéttabaráttunni.

Það er deginum ljósara að við slíkt verður ekki unað, því gerir Trúnaðarráð Verk Vest þá skýru kröfu að við öll ástundum málefnalega og þroskaða umræðu um málefni og starfsfólk verkalýðshreyfingarinnar.

Trúnaðarráð Verk Vest tekur því undir með forseta ASÍ að vinnandi fólk á Íslandi eigi þá sjálfsögðu kröfu að við sem störfum fyrir verkalýðshreyfinguna komum fram sameinuð og forðumst að týnast í eigin ágreiningi sem oft og tíðum fjallar um völd, persónur og leikendur.

Deila