Translate to

Fréttir

Árangursríkt starf starfsmanna í velferðarþjónustu um allt land

Í kjarasamningum á árinu 2008 var samið um starfsemi VIRK og fyrstu ráðgjafar VIRK hófu störf á árinu 2009.  Síðan þá hafa um 4500 einstaklingar leitað til VIRK og um 2000 einstaklingar hafa lokið þjónustu.  Flestir sem útskrifast frá VIRK hafa getu til þátttöku á vinnumarkaði á ný.

Á sama tíma og uppbygging VIRK hefur átt sér stað hefur þjóðin gengið í gegnum eitt mesta efnahagshrun síðari ára með miklu atvinnuleysi og erfiðleikum hjá fjölda fólks.  Það var og er ástæða til að óttast að þessar aðstæður valdi því að fleiri einstaklingar en áður búi við skerta starfsgetu og fari á örorkulífeyri til lengri tíma.  Rannsóknir og reynsla bæði hérlendis og erlendis hafa einnig sýnt fram á slæm áhrif langtíma atvinnuleysis á heilsu og vinnugetu einstaklinga. Byggð hefur verið upp öflug starfsendurhæfingarþjónusta um allt land á vegum VIRK og í samvinnu við stéttarfélög og fjölda annarra aðila.  Nú eru starfandi hjá stéttarfélögum um 40 ráðgjafar og VIRK hefur gert  samninga við fjölda úrræðaaðila og starfsendurhæfingarstöðvar um allt land til að tryggja einstaklingum fjölbreytta ráðgjöf, þjónustu og  úrræði við hæfi. 

Að þessu starfi kemur því fjöldi fagaðila sem vinnur markvisst að því að bæta vinnugetu og lífsgæði fólks sem þarf á stuðningi að halda í kjölfar veikinda eða slysa.  Þessi þjónusta á án efa sinn þátt í því að færri einstaklingar hafa farið á örorkulífeyri en búast mátti við í kjölfar hrunsins enda hafa um 2000 einstaklingar lokið starfsendurhæfingu á vegum VIRK og flestir þeirra eru með vinnugetu að fullu eða hluta við útskrift.   Starfsendurhæfing skilar árangri - bæði fjárhagslegum og í formi aukinna lífsgæða og er því án efa arðbær fjárfesting fyrir einstaklinga og þjóðfélagið.

Búast má við að það muni taka langan tíma að vinna úr afleiðingum kreppunnar til framtíðar.  Nú stöndum við t.d. frammi fyrir því að stærri hópur en nokkru sinni fyrr hefur verið atvinnulaus í mjög langan tíma og það getur haft alvarlegar afleiðingar á starfsgetu þessara einstaklinga til framtíðar.  Áhrif kreppunnar hvað þetta varðar eru því að öllum líkindum ekki að fullu komin fram og því er gríðarlega mikilvægt að gera enn betur en áður.  Nánar má lesa um þetta á heimasíðu VIRK.
Deila