Translate to

Fréttir

Ársfundur ASÍ 2010

Ársfundur Alþýðusambands Íslands var haldin dagana 21 - 22. október, frá Verkalýðsfélagi Vestfirðinga voru fimm ársfundarfulltrúar, Finnbogi Sveinbjörnsson, Ólafur Baldursson, Finnur Magnússon, Sólrún B. Aradóttir og Guðjón Kr. Harðarson. Fyrirkomulag ársfundar hefur oft fengið á sig þá gagnrýni að efni hans væri allt fyrirfram niðurnjörvað og ársfundarfulltrúar gætu lítil áhrif haft á loka niðurstöðuna Fundurinn í ár var með mjög breyttu sniði þannig að fulltrúar allra félag komu að vinnu og gerð ályktana, viðhaft var svonefnt þjóðfundarfyrirkomulag þar sem allir gátu tekið þátt í aðvinna og móta þær áherslur sem fundurinn síðan sendi frá sér.

Ályktanir fundarins voru því unnar af um 300 fulltrúum sem allir voru valdir inna raða sinna félaga. Ályktanirnar má nálgast á heimasíðu ASÍ. Á fundinum voru einnig kosningar um æðstu embætti sambandsins, forseta og varaforseta. Sitjandi forseti Gylfi Arnbjörnsson fékk mótframboð frá Guðrúnu Jóhönnu Ólafsdóttur frá VR en niðurstöður kosningannna voru á þann veg að Gylfi bar sigur úr bítum með um 73% greiddra atkvæða. Í kosningunni um varaforseta voru Signý Jóhannesdóttir frá Stéttarfélagi Vesturlands og Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir í framboði. Niðurstöður þeirra kosninga voru á þann veg að Signý Jóhannesdóttir hlaut kosningu í embætti Varaforseta með 64% greiddra atkvæða. Þess má geta að fyrrverandi varaforseti ASÍ, Ingibjörg R. Guðmundsdóttir hefur dregið sig í hlé vegna mjög erfiðra veikinda.

Nánar er fjallað um ársfundinn, ræður og erindi, ályktanir ársfundar ásamt niðurstöðum kosninga á heimasíðu ASÍ.  
Deila