Translate to

Fréttir

Ársfundur ASÍ: Félagsmálaráðherra boðar siðvæðingu í stað nýfrjálshyggju og græðgi

Jóhanna: Niður með græðgi - upp með samhjálp Jóhanna: Niður með græðgi - upp með samhjálp

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra sagði í ræðu sinni á ársfundi ASÍ aldrei eins mikilvægt og nú að setja áætlun um uppbyggingu á traustu almannatrygginga- og lífeyriskerfi og koma í veg fyrir ósanngjarnar víxlverkanir milli lífeyrissjóðanna og almannatrygginga. Ráðherra kynnti einnig hugmyndir um að bæta launafólki betur en áður þá launaskerðingu sem það kann að verða fyrir ef atvinnurekandi óskar eftir breytingum á ráðningakjörum í formi lægra starfshlutfalls. Þá sagði Jóhanna að áfram yrði unnið að aðstoð við þá sem eiga í vanda vegna verðtryggðra húsnæðislána. Hún skipaði í dag fimm manna nefnd sérfræðinga til að gera tillögur í þá veru.

Að lokum boðaði félagsmálaráðherra breytt gildismat og endurreisn siðferðis í samfélaginu:


"Aldrei eins og nú hefur verið brýnna að afnema þau forréttindi ráðamanna að geta haldið bæði háum lífeyrisgreiðslum á sama tíma og þeir halda fullum launum á kostnað skattgreiðenda.

Það er auðvitað hrein ósvífni við núverandi aðstæður að halda þessu áfram.

 

Góðir ársfundarfulltrúar.

Það er ekki bara nýfrjálshyggjan sem beðið hefur skipbrot, það er ekki bara peningastefnan sem beðið hefur skipbrot, siðferðisvitund alltof margra hefur blindast vegna græðgisvæðingar.

Ákall þjóðarinnar við þessar aðstæður hlýtur að vera á breytt gildismat, endurreisn á grunn- og siðferðisgildum í samfélaginu, nýtt verðmætamat á störfum fólks á vinnumarkaði á auðvitað að vera þáttur í enduruppbyggingu á íslensku samfélagi.

 

Það er að minnsta kosti von mín að þessi hrikalega dýrkeypta reynsla verði lærdómur um það að hverfa frá því einstaklingshyggjusjónarmiði að hver sé sjálfum sér næstur, að stærra hús, stærri bíll, snekkjur og einkaþotur séu ekki þau verðmæti sem mestu máli skipta.

Með stjarnfræðilegum ofurkjörum slitu menn sig í raun úr siðferðilegu sambandi við þjóðina og með ótrúlegum kaupréttarsamningum fóru stjórnendur bankanna fram í útrásinni af alltof miklum glannaskap, þar sem spilað var djarft með almannafé.

 

Af þessu verða allir að læra, og þar skiptir máli að hóflega sé farið í kjörum stjórnenda nýju bankanna, þannig að þjóðinni misbjóði ekki. Mín skoðun er sú að of langt hafi verið gengið við ákvörðun um kjör nýrra bankastjóra og ekki síst þegar kjararýrnun er framundan. Ég hefði viljað sjá að þar hefði verið farið varlegar af stað en raun ber vitni nú þegar við þurfum að gæta hófs og vinna okkur saman út úr erfiðleikunum.

 

Fólk vill breytingar á samfélaginu. Ég spyr því, eiga skilaboðin nú til þjóðarinnar að vera þau að hæstu launagreiðslur í öllu stjórnkerfinu eigi að vera laun bankastjóra?

Nei, auðvitað ekki, þessu verður að breyta."

 

Ávarp Jóhönnu í heild.

Deila