Translate to

Fréttir

Ársfundur ASÍ: Grétar Þorsteinsson sagði aðild að ESB einu leiðina

Hér virtist framtíðin bjartari. Grétar Þorsteinsson (t.v.) á góðri stund eftir stofnfund Verk-Vest 2002. Hér virtist framtíðin bjartari. Grétar Þorsteinsson (t.v.) á góðri stund eftir stofnfund Verk-Vest 2002.

Grétar Þorsteinsson forseti ASÍ setti í morgun ársfund Alþýðusambands Íslands. Þetta er í síðasta skipti sem Grétar setur ársfund ASÍ en hann mun láta af embætti á morgun þegar nýr forseti ASÍ verður kjörinn. Í setningarræðu sinni lagði Grétar áherslu á að þrátt fyrir áföll undangenginna vikna sé lífsnauðsyn að tryggja að gangvirki atvinnulífsins haldi áfram að snúast eins og kostur er. Þá sagði hann aðild að ESB einu færu leiðina fyrir Ísland inn í nýja framtíð.

Grétar sagði m.a:

"Við verðum að bæta ímynd okkar og trúverðugleika í hinu alþjóðlega samfélagi. Við gerum það ekki með því að kaupa okkur aðstoð færustu ímyndar- og auglýsingasérfræðinga - ef ekkert er á bakvið. Íslenska þjóðin hefur fengið nóg af slíku. Við höfum fengið nóg af glansmyndum og glæsilegum umbúðum án innihalds. Núna þurfum við að einbeita okkur að innihaldinu - og koma því á framfæri á heiðarlegan og trúverðugan hátt.

Það hefur legið ljóst fyrir í mínum huga að nauðsynlegt væri að Ísland óskaði eftir aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þegar í stað. Aðstoð sjóðsins yrði í formi lánveitingar, en einnig ráðgjafar um það hvernig við komum okkur út úr núverandi ástandi. Við þurfum að koma okkur upp trúverðugri áætlun til næstu ára um það hvernig við ætlum að vinna okkur út úr vandanum.

Þetta er algjört lykilatriði, samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn skapar skilyrði fyrir því að önnur ríki og Seðlabankar geti komið til aðstoðar. Takist okkur að móta sannfærandi aðgerðaáætlun sem bæði við sjálf og aðrir hafa trú á að gangi, þá opnast leiðir til að byggja upp traustan gjaldeyrisvarasjóð og opna fyrir nauðsynlega lánafyrirgreiðslu erlendis frá.

Nú liggur fyrir að leitað verður til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og því ber að fagna.

En ágætu félagar. Vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem eru á alþjóðlegum fjármálamörkuðum óttast ég að meira þurfi til. Því tel ég, að til þess að auka trúverðugleika þessara aðgerða, sé eina færa leiðin að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu og óska eftir aðildarviðræðum og fá úr því skorið hverra kosta er völ og síðan fari málið í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Setningarræða Grétars er hér.

Deila